Leita raunverulegra reikistjarna í tölvuleik

03.08.2017 - 22:10
Mynd með færslu
 Mynd: CCP
Tölvuleikjaspilarar í Eve Online aðstoða nú vísindamenn við að finna raunverulegar reikistjörnur í öðrum sólkerfum. Verkefnið hefur fengið afar góðar viðtökur og um hálf milljón ábendinga berst á degi hverjum um hugsanlegar reikistjörnur. 

Sögusvið Eve Online tölvuleiksins er úti í geimnum. Núna hefur bæst við leikinn vísindaverkefnið Project Discovery. Það er unnið í nánú samstarfi CCP við Michel Mayor, prófessor við Háskólann í Genf, sem fann fyrstu reikistjörnuna utan sólkerfis okkar. Vísindamennirnir í Sviss útvega gögn úr Corot-sjónaukanum.

„Við sýnum þau gögn á grafi þar sem við sjáum ljósgögn frá sólkerfinu,“ segir Hjalti Leifsson, forritari hjá CCP. Dýfur í grafinu sýna að eitthvað er að fara fram fyrir sólina. Spilarar leita svo að dýfur sem verða með reglubundnum hætti en þær benda til þess að þar sé reikistjarna á ferð. 

„Þetta er líka vandamál sem tölvur nútímans geta ekki leyst auðveldlega. Mannsaugað er ennþá miklu betra í að sjá reglulegar dýfur og reglulega hluti,“ segir Hjalti.

Spilararnir fá svo verðlaunafé sem þeir geta nýtt í tölvuleiknum. Og viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. „Leikurinn hentar gríðarlega vel fyrir þetta vegna þess að við erum með spilara sem eru gríðarlega áhugasamir um vísindi og það hafa nú þegar skilað sér inn 13 milljónir greininga,“ segir Stefanía G. Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri CCP á Íslandi. 

Upplýsingarnar eru svo yfirfarnar og sendar til vísindamannanna í Sviss. Þetta sparar þeim mikla vinnu. „Vonandi finnum við einhverja plánetu og miðað við hversu margir eru að taka þátt, þá er þetta bara tímaspursmál,“ segir Hjalti.