Leikrit um Lúkasarhneykslið

Innlent
 · 
Leiklist
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu

Leikrit um Lúkasarhneykslið

Innlent
 · 
Leiklist
 · 
Menningarefni
Leikverk um hundinn Lúkas sem átti að hafa verið drepinn á grimmilegan hátt á Bíladögum á Akureyri árið 2007 verður frumsýnt í Rýminu á Akureyri í kvöld. Maðurinn sem var sakaður um drápið segist vona að sýningin hjálpi honum að loka málinu.

Lúkas var sárt syrgður af fjölda manns sem fleyttu kertum í minningu hans - en hann fannst síðar á lífi. Verkið er spunasýning en leikhópurinn Norðurbandalagið byrjaði frá grunni fyrir 15 dögum en fann auðveldlega til efnivið í handritið

Leikritið er meðal annars unnið upp úr heimildum á netinu. „Við skrifum verkið með hjálp fólksins sem skrifar á kommentakerfið þannig að það sem þið heyrið í verkinu hefur raunverulega verið sagt,“ segir Jón Gunnar Þórðarson leikstjóri verksins. 

„Þetta er fjölmiðlaskandall og skandall sem öll íslenska þjóðin tók þátt í, einelti af verstu gerð. Þetta er kolsvartur húmor og verkið er skemmtilegt og áminning í leiðinni til okkar,“ segir Jón Gunnar.

Helga Rafni Brynjarssyni, sem var sagður höfuðpaurinn í drápinu á Lúkasi, voru síðar dæmdar miskabætur fyrir ummæli sem voru látin falla um hann á internetinu. Hann ætlar að mæta á sýninguna. „Þetta verður góð leið fyrir mig til að leggja þetta mál alveg til grafar og loka því að fullu. Það er í rauninni ekki lengur hægt að skrifa nafnlaust á netinu út af þessu máli, sem ég tel vera mjög stóran plús í samfélaginu á Íslandi,“ segir Helgi Rafn. „Það ætti enginn að þurfa að lenda í þessu,“ bætir hann við.