Leiguverð hefur hækkað tvöfalt á við laun

25.04.2017 - 17:09
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Meðalleiguverð á tveggja herbergja íbúð á milli Kringlumýrarbrautar og Rekjanesbrautar hefur hækkað um 19 prósent á einu ári. Það er hækkun sem nemur 515 krónum á hvern fermetra. Hins vegar hefur tveggja herbergja íbúð vestan Kringlumýrarbrautar hækkað um 14 prósent.

Þetta kemur fram á greiningarvef Þjóðskrár Íslands en þar er hægt að fylgjast með meðalleiguverði miðað við fermetra á landinu. Þjóðskrá hefur tekið saman upplýsingar um leiguverð í mars 2017.

Leiguverð er skoðað út frá stærð og staðsetningu íbúðanna. Þar kemur fram að vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 10, 3 prósent á einu ári. Hagstofan greindi nýverið frá því að launavísitala hefði hækkað um 5 prósent á einu ári. Leiguverð hefur því hækkað tvöfalt á við laun.

Á landsbyggðinni má sjá mesta hækkun á meðalleiguverði á Suðurlandi. Þar hækkar fermeterinn um 15 prósent. Aðra sögu er að segja af leigumarkaðnum á Vesturlandi. Þar lækkaði fermetraverð um 2,5 prósent og fer úr 1818 krónum niður í 1771 krónur.

Fréttin er skrifuð af meistaranema í blaða- og fréttamennsku.

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir
Fréttastofa RÚV