Leigjendur safna síður sparifé

19.05.2017 - 13:39
Mynd með færslu
Una Jónsdóttir, hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði.  Mynd: Íbúðalánasjóður
Mun fleiri leggja fyrir sparifé nú en árið 2011, eða tæp 62 prósent miðað við 42 prósent þá. Þetta kom fram í niðurstöðum könnunar Íbúðalánasjóðs sem kynnt var á fundi sjóðsins í gær.

Segir hag leigjenda að versna

Una Jónsdóttir, hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði, segir að leigjendur geti síður safnað sparifé en fasteignaeigendur. Staðan sé erfið þrátt fyrir að fleiri geti lagt fyrir. „Það hefur tekist nokkuð vel að rétta úr kútnum á síðustu árum sem er í takt við aukinn kaupmátt heimilanna og efnahagsbata í þjóðfélaginu en það er athyglisvert að velta fyrir sér hvers vegna fólk getur ekki keypt húsnæði. Aukinn sparnaður virðist ekki duga því fasteignaverðið hefur hækkað þeim mun meir,“ segir hún.

Rúm 93 prósent telja óhagstætt að leigja íbúðarhúsnæði á Íslandi nú miðað við 55 prósent árið 2011. Una segir ljóst að hagur leigjenda sé að versna. „Hlutfall fólks á leigumarkaðnum hefur þó haldist svipað því þótt hann sé óhagkvæmur þá hefur fólk ekki annarra kosta völ en að vera þar áfram.“

Mynd með færslu
 Mynd: flickr.com/23748404@N00/

Fólk aftur tilbúið til fasteignakaupa

Fólk var spurt að því í könnuninni hvers vegna það væri að leigja og voru nær eingöngu tvær ástæður gefnar upp. Fólk hafi ekki haft efni á að kaupa eða ekki komist í gegnum greiðslumat. Í könnunum sjóðsins árin 2011 og 2013 voru algengustu svörin aftur á móti þau að óvissa væri á húsnæðismarkaði eða í þjóðfélaginu, það væri ódýrara að leigja eða að fólk væri búið að tapa miklu fé í þáverandi eða fyrra húsnæði. „Á þessum tíma höfðu margir brennt sig á að eiga húsnæði og voru ekki tilbúnir að skuldbinda sig á ný. Það virðist hafa breyst og fólk vill skuldbinda sig aftur.“

Dagný Hulda Erlendsdóttir