Leiftrandi snörp og fyndin

Bókmenntagagnrýni
 · 
Bókmenntir
 · 
Menningarefni
 · 
Víðsjá

Leiftrandi snörp og fyndin

Bókmenntagagnrýni
 · 
Bókmenntir
 · 
Menningarefni
 · 
Víðsjá
Mynd með færslu
05.01.2017 - 13:01.Halla Þórlaug Óskarsdóttir.Víðsjá
„Sigga fer á kostum í frásögn sinni sem er leiftrandi snörp og fyndin en fyrst og síðast einlæg,“ segir gagnrýnandi Víðsjár um bókina Elsku drauma mín – Minningarbók Sigríðar Halldórsdóttur.

Sigríður Albertsdóttir skrifar:

Ögrandi spurningar slá sögumann út af laginu

„Það tekur karlmaður í höndina á mér, lófinn er mjúkur og hlýr. Ég lít upp. Þetta er hann pabbi og veðrið er gott. Það er vor í Mosfellsdalnum, allt er að fæðast og byrja, allt er að vakna, rétt eins og nývaknað minni mitt. Ég heiti Sigríður Halldórsdóttir og ég er þriggja ára.“ (7)

Á þessum orðum hefst minningabókin Elsku Drauma mín, viðtalsbók Vigdísar Grímsdóttur við Sigríði Halldórsdóttur, Siggu eins og hún er oftast kölluð. Sigga er dóttir hjónanna Halldórs Laxness og Auðar Sveinsdóttur og í bókinni rekur hún meðal annars uppvöxt sinn á Gljúfrasteini í Mosfellsdal. Líf hennar er að sjálfsögðu öðruvísi en annarra barna, það tekur sinn toll að vera dóttir Nóbelsskálds. Á meðan önnur börn í Dalnum fá að þjösnast um og leika sér eru heimasæturnar á Gljúfrasteini, Sigga og Duna, sendar kornungar erlendis til að nema ýmis fræði sem þær nenna hreint ekki neitt. Heimþráin er að drepa þær og þær þrá ekkert heitar en að komast aftur heim í Dalinn sinn.

Togstreita skyldu og langana

Vegna þessa býr snemma um sig ákveðin togstreita í huga Siggu, togstreita á milli skyldu rithöfundabarnsins og langana þess sama. Hún vill bara fá að vera eins og aðrir krakkar og það er vissulega í boði, þó með ákveðnum undantekningum sem ergja Siggu. Ein slík hverfist um ferminguna. Sigga er líkt og aðrir krakkar uppfull af spennu og hún hlakkar gríðarlega mikið til þess að fermast. En pabbinn grípur í taumana og kveður upp dóm sinn. Sigga á ekki að fá að fermast fyrr en 16 ára þegar hún hefur aldur og þroska til þess að taka sjálfstæðar ákvarðanir.

Líf í skugga skáldsins

Þessi ákvörðun Halldórs veldur Siggu miklum vonbrigðum en hún veit að föðurnum verður ekki hnikað. Orð hans eru lög. Og í barnæsku sinni, sem og á unglingsárum, lifir Sigga í skugga skáldsins. Hún lýsir endalausum gestaganginum á Gljúfrasteini en þá áttu stúlkurnar að hjálpa til og hafa sig hægar. Hún lýsir því hvernig ætlast var til að þögnin ríkti á meðan skáldið skrifaði en það hefur tæpast verið auðvelt fyrir tvær tápmiklar hnátur. Sigga segir: „Það verður líka að segjast að við skiljum nú ekki alltaf í botn að blessaður maðurinn þurfi alla þessa kyrrð til að hugsa og vinna; ekki þarf mamma hana, ekki þurfum við systur hana, ekki vinnukonurnar, ekki amma okkar, ekki frænkurnar, engin kona sem við þekkjum þarf þessa kyrrð til að hugsa og vinna, og samt hugsa þær og vinna.“ (157)

Djammi sleppt fyrir Saffró

En þrátt fyrir ægivald skáldsins sem vissulega drottnar yfir heimilinu þá lýsir Sigga honum sem einstaklega ljúfum föður sem lítur á börnin sín sem jafningja líka þegar þau eru örsmá kríli. Einkum og sér í lagi uppveðrast hann ef stúlkurnar sækja til hans fróðleik og í einum, afar fyndnum kafla, lýsir Sigga því þegar hún í sakleysi sínu spyr hann um hver Saffó hafi verið og hvar hún bjó. Hún er á leiðinni á djammið á laugardagskvöldi en skemmst er frá því að segja að hún missir af þeirri skemmtun því, eins og segir í textanum: „Stundum gleymi ég því neflilega hvað maðurinn getur verið voðalega nákvæmur … og hvernig hann fer gersamlega úr sambandi þegar hann fær áhuga á einhverju.“ (289) Pælingar skáldsins taka allt kvöldið svo Sigga missir af djamminu!

Í bókinni fjallar Sigríður eðlilega töluvert um lífið á Gljúfrasteini en það er ekki aðal uppistaðan í bókinni. Hún fjallar um karlmennina í lífi sínu sem og stærsta auðinn, börnin sín fjögur, og síðast en ekki síst um allar þær sterku og gjöfulu konur sem auðgað hafa líf hennar. Móðirin, Auður Sveinsdóttir, fær heilmikið pláss sem undirstöðustólpi tilveru Siggu sem og Dunu og Halldórs. Það er hún sem heldur öllu gangandi og ljóst að án hennar styrku handa, ákveðni og festu hefði tæpast verið unnt að halda uppi heimili á Gljúfrasteini. Dunu systur sinni lýsir Sigga á lifandi hátt, sem persónu sem lætur engan vaða yfir sig, skammar systur sína þegar svo ber undir en er ávallt til staðar í blíðu og stríðu. Systur Halldórs, Helgu, eru gerð skemmtileg skil og fleiri konum lýsir Sigga; sterkri og dugmikilli ömmu sem og vinkonum úr menntaskóla sem enn halda hópinn.

Fellur ekki í beiskjupytt

Elsku Drauma mín er ánægjuleg lesning. Sigríður Halldórsdóttir fer með okkur aftur í tímann og segir áhugaverðar, skemmtilegar og einlægar sögur. Kannski hefði mátt segja ögn meira frá samböndum Siggu en hún kýs að hafa ekki um þau of mörg orð. Og það er í sjálfu sér allt í lagi. Greinilegt er að hún hefur tekið þann pól í hæðina að fjalla um líf sitt þannig að hún falli hvergi í einhvern beiskjupytt. Ljóst er að hún hefur marga fjöruna sopið en hún hallar ekki á nokkurn mann. Og það er aðdáunarvert. En þótt Sigga hafi kosið að kafa ekki allt of djúpt er frásögnin, þegar allt kemur til alls, afar einlæg. Sigga fer á kostum í frásögn sinni sem er leiftrandi snörp og fyndin en fyrst og síðast einlæg. Einkum undir lok bókar þar sem hún lýsir því hvernig foreldrar hennar báðir, hið sterka par Halldór Laxness og Auður Sveinsdóttir, hverfa inn í algleymi hins skelfilega sjúkdóms Alzheimer. Það er sorglegt að lesa.

Bókin er faglega unnin. Hér er ekki á ferð hefðbundin ævisaga þar sem sagan er sögð frá barnæsku til elliára. Farið er fram og til baka í tíma og inn í frásögnina eru fléttaðar hugleiðingar barna Siggu, vina og ættingja en þessar hugleiðingar ljá sögunni sterkari blæ. Öðru hvoru, þó ekki oft, grípur skrásetjarinn, Vigdís Grímsdóttir, inn í frásögnina með ögrandi spurningum sem stundum virðast slá Siggu út af laginu. En hún nær sér alltaf á strik í kraftmikilli og lifandi frásögn.