Leiðtogi Boko Haram sagður hafa særst

03.05.2017 - 13:36
FILE - In this Monday May 12, 2014 file photo taken from video by Nigeria's Boko Haram terrorist network, shows their leader Abubakar Shekau speaking to the camera. Boko Haram leader Abubakar Shekau is believed to be fatally wounded in an airstrike
Abubakar Shekau, leiðtogi Boko Haram.  Mynd: AP
Abubakar Shekau, leiðtogi hryðjuverkasamtakanna Boko Haram, særðist í loftárás í norðausturhluta Nígeríu síðastliðinn föstudag. Fréttastofan AFP hefur þetta eftir ónefndum heimildarmönnum, sem segja að tveir af nánustu samstarfsmönnum leiðtogans hafi fallið í árásinni. 

AFP segir að tvær nígerískar orrustuþotur hafi á föstudag varpað sprengjum á vígamenn Boko Haram þar sem þeir hafi komið saman til bæna í þorpinu Balla í jaðri Sambisa-skógarins.

Haft er eftir einum heimildarmanna að Shekau hafi særst og sé talinn hafa verið fluttur undir læknishendur í nágrenni Kolofata rétt við landamærin að Kamerún. 

AFP segir að annar heimildarmaður hafi haft svipaða sögu að segja, en ekki hafi fengist svör frá nígeríska hernum þegar þangað hafi verið leitað. Yfirvöld í Nígeríu hafi á undanförnum árum að minnsta kosti þrisvar sinnum lýst því yfir að Shekau hafi fallið í árásum hersins.
 

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV