Leggja til að rækjukvótinn verði 5000 tonn

02.08.2017 - 16:44
Mynd með færslu
Mennirnir stálu meðal annars rækju, sem reyndar er hvorki fugl né fiskur.  Mynd: RÚV
Hafrannsóknastofnun leggur til að leyfðar verði veiðar á 5000 tonnum af úthafsrækju á fiskveiðiárinu 2017 til 2018. Ráðgjöf yfirstandandi fiskveiðiárs var 4100 tonn.

Í tilkynningu frá stofnuninni segir að vísitala veiðistofnsins hafi lítið breyst frá árinu 2012 að undanskildu árinu 2015 þegar hún lækkaði og var sú lægsta frá upphafi. Ráðgjöf í úthafsrækju hafi verið byggð á ársgömlum vísitölum, þannig var ráðgjöfin 2016 byggð á vísitölu 2015. Í ár er ráðgjöfin birt seinna og byggir því á vísitölu 2017.

Vísitala ungrækju hefur verið lág frá 2004 og var í sögulegu lágmarki árin 2015 og 2016. Samkvæmt forsendum ráðgjafar þá hefur stofnvísitalan verið nokkuð stöðug frá árinu 2012 en stofnmælingin bendir ekki til að stofninn stækki á næstu árum.

Veiðar á úthafsrækju hófust um miðjan áttunda áratuginn og eru helstu veiðisvæðin norðan við landið. 

Mynd með færslu
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV