Lárpera orðin munaðarvara í Mexíkó

07.08.2017 - 18:06
Mynd með færslu
 Mynd: p  -  pixabay
Eftirspurn eftir avókadó hefur vaxið svo hratt á síðustu árum að Mexíkó, sem framleiðir um helming allra lárpera í heiminum, þarf hugsanlega að hefja innflutning á ávextinum á næstunni.

Avókado eða lárpera, eins og ávöxturinn hefur verið kallaður á hinu ástkæra, ylhýra, er talinn upprunninn í Mexíkó, nánar tiltekið í Puebla sem er inni í miðju landi. Það er því ekki að undra að avókado skuli verið hráefni og uppistaða í mörgum þjóðarréttum Mexíkóa, nægir þar að nefna gvakamóle sem flestir þekkja.

Mexíkó er enda langstærsti framleiðandi lárpera í heiminum, þaðan kemur um helmingur allrar uppskeru á hverju ári. Tekjur Mexíkó af þessum græna og holla ávexti eru ennfremur gríðarlegar, og færa reyndar orðið meira gull í ríkiskassann en tekjur af olíuútflutningi.

En það eru blikur á lofti. Nú er svo komið að eftirspurn eftir avókado í hinum vestræna heimi hefur vaxið svo hratt að Mexíkóar hafa vart sjálfir efni á að kaupa avókadó til eigin nota. Kílóaverðið jafngildir orðið lágsmarksdaglaunum í Mexíkó og venjulegt fólk hefur tæplega efni á slíkum munaði nema rétt endrum og sinnum. Enda hefur dagneysla avókadó í Méxíkó dregist saman um 20 af hundraði á sama tíma og hún hefur aukist að sama skapi í hinum vestræna heimi. Ildefonso Guajardo, efnahagsmálaráðherra Mexíkó, segir í samtali við breska blaðið Guardian að stjórnvöld hafi í fúlustu alvöru íhugað að gera það sem áður hefði þótt óhugsandi, og jafnvel aðhlátursefni, að hefja innflutning á avókadó, helstu útflutningsafurð landsins. Sem er kannski ekki ósvipað því og ef Íslendingar færu að flytja inn ýsu.....eða þorsk.... eða ísmola.
 

 

Mynd með færslu
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV