Langþreytt á að gefa vinnuna sína

Karó
 · 
Lestin
 · 
Tónlist
 · 
Menningarefni

Langþreytt á að gefa vinnuna sína

Karó
 · 
Lestin
 · 
Tónlist
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
18.06.2017 - 16:58.Nína Richter.Lestin
Árið 2015 sigraði tónlistarkonan Karólína Jóhannesdóttir, eða Karó, Söngvakeppni framhaldsskólanna fyrir hönd Menntaskólans í Reykjavík. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og hefur hún sent frá sér hvern smellinn af öðrum í vel lukkuðu samstarfi við Loga Pedró, sem framleiðir tónlistina.

Tónlist Karó hefur fengið nokkra spilun erlendis og er það ekki síst streymisveitum að þakka. Hún lýsir því hvernig fyrirkomulagið á Spotify hefur hjálpað við dreifingu tónlistarinnar á hátt sem hún gat ekki séð fyrir. „Wolfbaby var sett inn á H&M playlista í fyrra, spilað úti um allt í H&M búðum um allan heim og þá fékk það ógeðslega margar spilanir út á það.“ 

Nýtt lag og leitin að laglínunni

Karó sendi nýverið frá sér nýtt lag sem ber nafnið „Overnight“„Ég vann það með Auði, Auðuni Lútherssyni og hann var búinn að semja megnið af laglínunni þegar ég fæ lagið í hendurnar. Ég samdi textann og svo eitthvað í laglínunni líka, en þetta er um [ástand] í ástarsamböndum, sérstaklega snemma þegar enginn vill taka af skarið. Það vill enginn segja „Hey hvað erum við að gera.“ Það er alltaf óvissa og þetta er í rauninni bara það.“

Aðspurð um sköpunarferlið segir Karó að í upphafi fái hún yfirleitt taktinn í hendurnar frá Loga Pedró, eða hverjum sem hún er að vinna með það skiptið. „Svo hlusta ég á það nógu oft þangað til ég er búin að fá tilfinninguna fyrir því hvar laglínan liggur í rauninni. Mér finnst alltaf eins og ég þurfi að finna laglínuna, eins og hún sé inni í bítínu – og reyna að finna eitthvað sem mér finnst virka og hljóma fallega.“

Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson  -  Canon Mark 1X-D
Karó var á meðal flytjenda á Airwaves tónlistarhátíðinni í fyrra.

Algjör forréttindi

Karó segist sækja innblástur í allar áttir, en hún horfir mikið til tónlistar níunda áratugarins. Hún nefnir hljómsveitina Fleetwood Mac meðal áhrifavalda. Hún segist sérstaklega reyna að elta uppi fallegar laglínur. „Ég reyni svona að kryfja þær svolítið og gá hvað það er sem mér finnst gera þær fallegar. Og reyna að nýta mér það einhvernveginn.“

Velgengnin hefur komið henni á óvart. „Ef þú hefðir sagt mér að ég yrði hér fyrir tveimur árum þá hefði ég sagt nei ekki séns, það er bara ekki að fara að gerast.“ Hún tekur þó engu sem sjálfsögðum hlut. „Þetta er búið að vera geðveikt gaman. Það er draumur að fá að vinna með ógeðslega hæfileikaríku fólki að gera það sem maður elskar, þannig að það eru algjör forréttindi.“ 

Ekki borin virðing fyrir vinnunni

Hún segir langtímamarkmiðið vera að hafa tónlistina að aðalstarfi, en er þrátt fyrir það nýbúin að skrá sig í grunnnám í sálfræði við Háskóla Íslands. Hún segist alls ekki viss um það val. „Ég er mjög óviss með það og ég ætla bara að prófa og gá hvernig mér finnst það. Ef ég fíla það ekki þá langar mig rosalega í eitthvað listtengt nám.“

Hún segir starf tónlistarmannsins vera mjög erfitt. „Nú er ég að gera það bara í hlutastarfi og það er ógeðslega gaman og gefandi, en það er líka ógeðslega oft að ekki er borin virðing fyrir vinnunni manns. Að þetta sé vinna. Það er verið að reyna að fá mann frítt í allskonar verkefni sem ættu ekki að vera frí, og svindlað á launum. Það er ógeðslega leiðinlegt að tónlistarmenn og listamenn yfirhöfuð séu miklu meira í því að gefa vinnuna sína en aðrar stéttir, og maður verður langþreyttur á því.“

Anna Gyða Sigurgísladóttir ræddi við Karó í Lestinni á Rás 1.