Landamæramúrinn undirbúinn

01.09.2017 - 05:25
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Fjórir verktakar fá allt að hálfa milljón bandaríkjadala til að reisa sýnishorn af landamæramúr á milli Bandaríkjanna og Mexíkó. Sýnishornin eiga að vera um níu metrar að lengt og allt að níu metra há.

Verktakarnir hefjast handa á næstu mánuðum og opinberir starfsmenn taka sér svo um tvo mánuði til að meta vinnuna. Landamæramúr meðfram endilöngum landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó var eitt helstu baráttumála Donalds Trumps Bandaríkjaforseta í kosningabaráttunni í fyrra.

Breska ríkisútvarpið hefur eftir Ronald Vitiello, aðstoðar-forstöðumanni tolla- og landamæraeftirlits Bandaríkjanna, að sýnishorn verktakanna hjálpi stjórnvöldum að fínpússa hönnun múrsins. Prófanir verða gerðar til að athuga hversu auðvelt sé að komast í gegnum hann og hversu viðkvæmur hann verður fyrir skemmdarverkum.

Verktökunum verða gefin fyrirmæli um að hefjast handa á næstu vikum, og þá hafa þeir allt að 30 daga til að ljúka verkinu. Verktakarnir fjórir sem urðu fyrir valinu reisa múr úr steypu, en í næstu viku verður tilkynnt um fjóra aðra verktaka sem nota önnur byggingarefni.