Lagði parket á blauta steypu í Orkuveituhúsinu

06.09.2017 - 12:29
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Það kemur ekki á óvart að vesturhúsið sé ónýtt, segir húsasmiður sem var gert að leggja parket á blauta steypu í höfuðstöðvum Orkuveitunnar. Stjórnendum hafi legið svo á að ljúka byggingu að þeir hafi fríað hann ábyrgð á verkinu.

Þetta kom fram í Fréttablaðinu í morgun. Meirihluti borgarstjórnar vill bíða með að hefja rannsókn á húsi Orkuveitunnar. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina lögðu fram tillögur á fundi borgarstjórnar í gær um að hafin yrði opinber rannsókn vegna milljarða tjóns á húsi Orkuveitunnar. Samkvæmt tillögunum átti að leitast við að leiða í ljós orsakir tjónsins og hvaða lærdóm megi draga af málinu til framtíðar. Meirihlutinn ákvað að vísa málinu til borgarráðs. 

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, segir að það verði aðeins til að tefja það. „Ég var að vonast til þess að menn gætu tekið þessa ákvörðun í gær að fara í slíka rannsókn. Við höfum fengið margvísleg gögn í hendurnar sem sýna með óyggjandi hætti að þetta er greinilega ekki í lagi og ég skil ekki af hverju meirihlutinn kýs að vísa málinu til nefndar, það verður bara til þess að tefja málið og ég vona að það sé ekki verið að svæfa það,“ segir Kjartan. 

Líf Magneudóttir, forseti borgarstjórnar, segir brýnt að fara í rannsóknina. Það hafi ríkt samstaða um að fá dómskvaddan matsmann til að meta lagalega stöðu Orkuveitunnar og það sé ekki verið að slá rannsókn á frest. „Ég held að niðurstaða dómskvadds matsmanns liggi ekki fyrir. Þetta getur tekið langan tíma en ég held að við ættum ekkert endilega að vera að leita að pólitískum sökudólgum. Þar var náttúrulega úttektarskýrsla  um Orkuveituna og starfsemi hennar og það voru ýmsar aðfinnslur um hverju var ábótavant í starfsemi Orkuveitunnar, það var ekkert í lagi hvernig hlutirnir voru gerðir,“ segir Líf Magneudóttir. 

„Steypan var ekkert orðin þurr“

Í Fréttablaðinu í dag er rætt við Sigurð Waage húsasmíðameistara sem lagði parket í höfuðstöðvum Orkuveitunnar þegar þær voru byggðar. Hann segist hafa lagt parketið á blauta steypuna í vesturhúsi höfuðstöðvanna og það komi ekki á óvart að það sé ónýtt. „Gólfin voru steypt og það var lagt ofan á þetta fljótlega og steypan var ekkert orðin þurr. Það var stálkápa undir og síðan var sett rakavarnarlag ofan á og það þýddi að þú lokaðir rakann inni í steypunni og steypan þarf að anda, alveg eins og öll byggingarefni þurfa að anda, eins og allt líf á jörðinni þarf að anda,“ segir Sigurður. 

Hann segir að stjórnendum Orkuveitunnar hafi legið svo á að ljúka framkvæmdunum að þeir voru reiðubúnir að fría hann ábyrgð af verkinu. „Ég kem fram með þetta á verktakafundi og þá var bara sagt við mig: Við erum hér til að leysa málin drengur. Og með það var það afgreitt. Ég sagði að ég bæri aldrei ábyrgð á því og fékk uppáskrifað frá eftirlitsaðilum að myndi aldrei bera ábyrgð á þessu gólfi. Austurhúsið er náttúrulega allt í lagi því að þar er hefðbundið, það fékk að þorna og annað en þetta er náttúrulega bara helsjúkt,“ segir Sigurður.