Lætur reyna á leynd yfir meðmælendalistum

30.05.2014 - 16:19
Mynd með færslu
Þór Jónsson, íbúi í Kópavogi og laganemi, hefur kært yfirkjörstjórnina í Kópavogi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Þór óskaði eftir því um miðjan þennan mánuð að fá afhentar skriflegar yfirlýsingar kjósenda um stuðning við listana sem í framboði eru í bænum en yfirkjörstjórn hafnaði beiðninni.

Þór telur að þessi ákvörðun kjörstjórnarinnar brjóti í bága við 5. grein upplýsingalaga. Í kæru Þórs skemur fram að ástæðan fyrir því að hann sækist eftir þessum gögnum sé eftir mikla umræðu um ágreining um aðgang umboðsmanna tiltekinna framboða í Kópavogi að meðmælendalistum.

Samkvæmt upplýsingalögum ber formönnum kjörstjórna að afhenda umboðsmönnum framboða meðmælendalista.  Þór vill láta á það reyna hvort hinn almenni borgari hafi einnig aðgang að þessum gögnum. 

Þór segir í kæru sinni að yfirkjörstjórn hafi enga ástæðu til að tefja afgreiðslu beiðni sinnar. Hann hafi ítrekað hana í tölvupósti til yfirkjörstjórnar 22. maí og aftur 28. maí.