Lærdómurinn af harðstjórn 20. aldar

12.07.2017 - 16:42
Fyrr á þessu ári skrifaði bandaríski sagnfræðingurinn Timothy Snyder um þann lærdóm sem við getum dregið af harðstjórnartíð 20. aldar í ljósi stjórnmálaþróunar samtímans. Snyder verður gestur á Bókmenntahátíð í Reykjavík í september síðar á þessu ári.

Saga samfélagsþróunar á Vesturlöndum

„Sagan endurtekur sig ekki, en hún getur leiðbeint,“ skrifar Timothy Snyder í bók sinni On Tyranny eða Um alræði, sem kom út í febrúar sl. Ein elsta hefð Vesturlanda, að hans mati, er að líta til sögunnar þegar stöðugleiki samfélags og stjórnmála er ógnað með einum eða öðrum hætti. Það hefur verið tilfellið allt frá því að Platón sagði helsta verk lýðskrumara vera að misnota tjáningarfrelsi til þess að koma sér í einræðisstöðu og Aristóteles varaði síðar við því að ójöfnuður gæti stuðlað að óstöðugleika í samfélaginu.

Sérfræðingur í Evrópskri samtímasögu og helförinni

Timothy David Snyder er prófessor við Yale-háskóla í Bandaríkjunum. Hann er einnig vel tengdur háskólum í Evrópu enda hefur hann sérhæft sig í sögu mið- og austur Evrópu og sögu helfararinnar. Hann er væntanlegur til landsins síðar á þessu ári þegar hann verður gestur á Bókmenntahátíð í Reykjavík sem fram fer í september.

Bækur Snyders undanfarin ár hafa skoðað aðstæður í Evrópu á tímum harðstjórnar 20. aldar þegar nasismi, fasismi og kommúnismi skutu upp kollinum og er hann á svipuðum slóðum í nýjustu bók sinni, Um alræði, þó í samhengi við nútímann.

Eins og margar aðrar bækur, greinar og önnur skrif, sem finna má í Bandaríkjunum nú á dögum, er bók Snyders viðbragð við forsetakjöri Donalds Trump. Hún er sutt, aðeins um 130 síður og kemst vel í vasa. Hún er hugsuð sem hnitmiðuð sjálfshjálparbók fyrir lýðræðið, sem að mati Snyders horfist í augu við erkióvin sinn, alræðið.

Mistök að halda því fram að sögunni hafi lokið 1989

Í bókinni leggur Snyder út 20 stuttum dæmum frá 20. öld, þegar mannkyn tókst á við fasisma og harðstjórn af ýmsum toga og veitir hann samtímafólki sínu ráðleggingar út frá þeim. Hann nefnir árið 1989, þegar berlínarmúrinn var rifinn og Sovétríkin hrundu stuttu síðar. Í kjölfarið var sú skoðun hávær að sögunni væri lokið og að tími væri kominn til að gleyma harðstjórn 20. aldar fyrir fullt og allt. Framundan væri aðeins beinn og breiður vegur alþjóðavæðingar, upplýsinga og velmegunar. Þetta telur Snyder að hafi verið grundvallarmistök og í raun sé tími kominn að rifja upp þessi vandræðalegu augnablik mannskynssögunnar og hafa þau að geyma dýrmætan lærdóm.

Alræði viðbragð við alþjóðavæðingu

Undir lok 19. Aldar, rétt eins og þeirrar 20. var það aukin alþjóðavæðing og viðskipti sem skapaði væntingar fólks á Vesturlöndum um framfarir. Í tilfelli beggja þessara sögulegu tímamóta skapaðist þó jarðvegur fyrir lýðskrumspólitík. Einstakir leiðtogar eða flokkar nýttu sér ástandið til þess að telja fólki trú um að þeir myndu leiða framfarirnar óstuddir.

Segja má að bæði fasismi og kommúnismi hafi verið viðbragð við alþjóðavæðingu, við bæði raunverulegri og ímyndaðri misskiptingu og berskjöldun lýðræðissamfélagsins. Í augum fasista vék rökhyggja fyrir viljanum. Staðreyndir fyrir allsherjar goðsögnum samfélagsins og alþjóðavæðingin var talin samsæri gegn þjóðríkinu. Þetta hljómar óþægilega kunnuglegt í dag.

20 dæmi úr sögunni og lærdómurinn af þeim

Í bókinni Um alræði er fyrsta ráðlegging Snyders: „Ekki hlýða fyrirfram.“ Stærsti hluti valds er gefinn að kostnaðarlausu, lýðræðislega kosinn og aðlagaður. Samfélagið virðist kannski breytast og þróast nægilega hratt til þess að sjá megi skil í sögunni en vandamálið er að mannkynið hefur þann sérstaka eiginleika að lagast að breytingum.

Snyder tekur dæmi af Nasistaflokknum sem komst til valda eftir kosningar í Þýskalandi árið 1932 og kommúnistaflokknum í Tékkóslóvakíu sem kosinn var árið 1946, ári eftir að síðari heimstyrjöld lauk. Í kjölfar þessara kosninga var næsta skrefið að búast fyrirfram við hlýðni þegnanna. Fyrirfram hlýðni hefur þær afleiðingar að fólk aðlagast ósjálfrátt og án gagnrýni að nýjum aðstæðum og bæði í tilfelli Tékkóslóvakíu og Þýskalands voru nægilega margir sem tóku þátt, í algjörri fylgispekt við yfirvöld.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Adolf Hitler lýsir yfir stríði við Bandaríkin 1941

Í Þýskalandi 1932 töldu flestir kjósendur að um væri að ræða flokk sem yrði tímabundið við völd og myndi ekki endilega standa við allt sem hann hugðist gera. Flokkurinn hafði nýtt sér veika stöðu Þýskalands eftir blóðugustu styrjöld sem heimurinn hafði upplifað á þeim tíma og var fólk tilbúið til að fara út í óvissuna í þeirri góðu trú um að innviðir og stofnanir samfélagsins myndu sjá um aðhald.

Að mati Snyder þarf hins vegar að varast að fylgja eftir þegar straumur stjórnmálanna skiptir hægt og rólega um farveg; þegar innst inni er brotið á sannfæringu einstaklingsins.

Stofnanir samfélagsins viðhalda sér ekki sjálfar

Önnur ráðlegging Snyders kemur beint í kjölfar þeirrar fyrstu: „Vernda skal stofnanir.“ Þær stofnanir sem tryggja öryggi og stöðugleika samfélagsins viðhalda sér ekki sjálfar og eru jafn áhrifagjarnar og hvað annað. Ekki skal tala um stofnanir „okkar samfélags“ nema menn geri þær að sínu og styðji við þær, hvort sem það er dómstóll, fréttamiðill, lagaákvæði eða stéttafélag.

Snyder tekur aftur dæmi af Þýskalandi og Nasistaflokknum. Það hafi verið mistök margra þýskra gyðinga að gera ráð fyrir því að stofnanir samfélagsins myndu sjálfkrafa viðhalda sjálfum sér og bjóða ofríkinu byrginn. Þeir gyðingar sem kusu Nasistaflokkinn gerðu það í góðri von um að traustið sem þeir sýndu með atkvæðinu myndi tryggja að kerfið yrði þeim hliðhollt.

Mistökin eru því fólgin í því að gera ráð fyrir að valdhafar séu ófærir um að breyta umræddum stofnunum eða eyðileggja þær innan frá. Byltingaröfl eiga það til að reyna að veikja allar þessar stofnanir í einu, líkt og í tilfelli rússnesku Bolsévíkanna sem komust til valda eftir októberbyltinguna í Rússlandi árið 1917.

Frelsi þarfnast aðhalds

Þriðja ráðlegging Snyders er: „Varist einflokka ríkið.“ Þeir flokkar sem hafa þaggað niður andstæðinga sína og mótað ríki voru ekki svo máttugir frá upphafi. Þeir nýttu ákveðna vindátt eða strauma í samfélaginu í sinni þágu og smættuðu fjölflokkakerfið og lýðræðislegar reglur.

Snyder talar einnig um fortíð Bandaríkjanna. Í þann stutta tíma sem landið hefur verið til í stóra samhenginu hafa landsmenn litið svo á að Bandaríkin séu hið stóra vígi frelsis og lýðræðis og að allar ógnir sem steðji að landinu séu utanaðkomandi. Það er hreint ekki það sem höfundar sjálfstæðisyfirlýsingar landsins og stjórnarskrár höfðu í huga að mati Snyders. Heldur skyldi þvert á móti sjá til þess að enginn gæti nýtt sér frelsi landsins til þess að grafa undan þeim grunnstoðum sem þeir lögðu upp með. Algengur frasi meðal samtímamanna þeirra var að „ævarandi árvekni væri gjald frelsisins“. Frelsið þarf stöðuga aðhlynningu.

Timothy Snyder er áhyggjufullur, ekki bara vegna kjörs Trumps heldur alræðistilburða sem sjá má víða um heim; Marie Le Pen í Frakklandi, Robert Dutere í Filipseyjum, Recep Tayyip Erdogan í Tyrklandi og fleiri. 

Jóhannes Ólafsson
Tengivagninn