Kvenkyns ofurhetjur sækja í sig veðrið

23.07.2017 - 14:50
Í aðalsafni Borgarbókasafnsins er nú að finna heila hillusamstæðu sem er einungis tileinkuð kvenkyns ofurhetjum. Úlfhildur Dagsdóttir bókavörður segir að þeim fari sífellt fjölgandi og haldist í hendur við fleiri kvenkyns lesendur myndasagna.

„Fyrir nokkru setti ég upp kvenhetjuhillu í ofurhetjudeildinni,“ segir Úlfhildur í samtali við Síðdegisútvarpið, en ofurhetjusögurnar eru vinsælustu myndasögurnar fyrir utan hinar japönsku manga-sögur. „Nú tveimur árum seinna er þetta orðin heil hillustæða og þetta er svo vinsælt að það er bókstaflega rifið út.“

Úlfhildur telur að kvikmyndin um Undrakonuna muna auka veg kvenhetjunnar.

Úlfhildur segir að mikil breyting hafi orðið á lesendahóp myndasagna undanfarið og æ fleiri stelpur lesi slíkar sögur, sem svo endurspeglist í fjölbreyttari hetjum. „Þegar að myndasögudeildin var stofnuð árið 2000 var það yfirlýst markmið miðaldra bókavarða að lokka unga karlmenn inn á safnið. Því þeir hverfa okkur sjónum, koma sem krakkar en hætta að koma þegar þeir verða unglingar. Svo dúkka þeir upp aftur þegar þeir eru komnir á eftirlaunaaldur.“

Mynd með færslu
 Mynd: Buffy The Vampire Slayer
Sarah Michelle Gellar í hlutverki Buffy The Vampire Slayer, sem Úlfhildur telur fyrstu nútímakvenhetjuna.

Fljótlega hafi þó komið í ljós að stelpur höfðu einnig mikinn áhuga á myndasögum – sérstaklega Manga-sögum – en einnig á ofurhetjum og þá hafi komið krafa um fleiri kvenhetjur. En vilja stelpur endilega bara lesa sögur um kvenhetjur og karlar um karla? „Neinei, persónulega nenni ég til dæmis ekki að horfa á ofurhetjukvikmyndir nema það sé allavega einn áferðafallegur karlamður í þeim. En það er óneitanlega meira gaman að lesa sögu með alvöru kvenhetjum,“ segir Úlfhildur. Það hafi í gegnum tíðina skort í ofurhetjuheiminum, þó þar sé mikið af konum þá hafi þær verið í aukahlutverkum, einfaldari persónur og oft steríótýpur. 

Mynd með færslu
 Mynd: The Unbeatable Squirrel Girl
Hin ósigranlega íkornastelpa er um margt sérstök ofurhetja.

Á síðustu árum hafi þetta þó verið að breytast og í hillunni hjá Úlfhildi er heill lagar af kvenhetjum. Þessar klassísku eins og Supergirl, Batwoman og Wonderman, en líka nýrri hetjur eins og Black Canary, Captain Marvel og The Unbeatable Squirrel Girl sem Úlfhildur hefur sérstakt dálæti á. „Hún hefur krafta íkorna, sem manni finnst ekki sérstaklega merkilegt, en gerir ýmislegt við þá. Svo er hún ansi mjúk stelpa og með stóran íkornahala sem hún verður að troða í buxurnar sínar þannig hún er með vænan bakhluta.“

Þá telur Úlfhildur að Buffy The Vampire Slayer sé afar mikilvæg í sögulegri þróun kvenofurhetjunnar. „Hún er ein af fyrstu kvenhetjunum í þessum nútímaofurhetjuheimi, þar höfum við ákveðinn byrjunarpunkt,“ segir Úlfhildur að lokum og hvetur alla til að koma á Borgarbókasafnið og kynna sér kvenofurhetjur. 

 

Björg Magnúsdóttir ræddi við Úlfhildi Dagsdóttir á heimavelli hennar, Borgarbókasafninu, fyrir Síðdegisútvarpið.

Mynd með færslu
Davíð Roach Gunnarsson
vefritstjórn
Mynd með færslu
Björg Magnúsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðdegisútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi