Kúrdar kröfðust lýðræðis í Tyrklandi

18.03.2017 - 21:03
Erlent · Evrópa · Kúrdar · Tyrkland · Þýskaland
Um það bil þrjátíu þúsund kúrdískir mótmælendur komu saman í Frankfurt í Þýskalandi í dag og kröfðust lýðræðis í Tyrklandi. Þeir hvöttu Tyrki til að greiða atkvæði gegn breytingum á stjórnarskrá landsins sem ætlað er að auka völd Erdogans forseta til muna. Mun fleiri komu til fundarins en búist hafði verið við.

Stjórnvöld í Ankara fordæmdu að mótmælendum hefði verið leyft að safnast saman. Margir í hópnum báru merki Verkamannaflokks Kúrdistans, PKK, sem hefur barist hatrammlega gegn tyrkneskum stjórnvöldum í yfir þrjá áratugi.

Spenna er í samskiptum Tyrklands og Þýskalands eftir að nokkrum tyrkneskum ráðherrum var meinað að halda fjöldasamkomur til að sannfæra Tyrki sem búsettir eru í Þýskalandi og hafa kosningarétt í gamla heimalandinu um að styðja stjórnarskrárbreytingarnar. Atkvæðagreiðsla um þær verður 16. apríl. 

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV