Krísa hjá sigursælasta skíðamanni allra tíma

16.03.2017 - 18:18
epa03138215 Norwegian biathlete Ole Einar Bjorndalen at the shooting range during the men's relay 4x7.5km event during the 2012 Biathlon World Championships at the Chiemgau Arena in Ruhpolding, Germany, 09 March 2012.  EPA/PETER KNEFFEL
 Mynd: EPA  -  DPA
Upp hefur komið einkennilega staða hjá norska skíðaskotfimimanninum Ole Einar Bjørndalen. Bjørndalen sem er 43 ára gamall undirbýr sig nú af kappi fyrir vetrarólympíuleikana sem fram fara í Pyeongchang snemma á næsta ári en hann vantar þó engu að síður mikilvægasta hráefnið, gulluppskriftina.

Þannig er mál með vexti að æfingadagbókin hans frá tímabilinu 2007-2008 er týnd, en það tímabil vann hann til að mynda þrenn gullverðlaun á HM í Anterselva á Ítalíu.  Bjørndalen og þjálfari hans Roger Grubben viðurkenna það í samtali við norska ríkissjónvarpið NRK að þeir séu af gamla skólanum í þessum efnum.  Á meðan flestir skrá allar sínar æfingar niður í tölvutæku formi þá notast þeir enn við blað og penna og færa þar af leiðandi allar æfingar handvirkt til bóka.  

Æfingadagbókin mikilvæga sem Bjørndalen talar um sem gulluppskriftina er aftur á móti týnd, líklega á heimili Grubben.  Telur Bjørndalen það afar mikilvægt að bókin finnist sem fyrst því hann hafði hugsað sér að undirbúa sig eins fyrir þessa Ólympíuleika og hann gerði fyrir HM 2007.

Bjørndalen ætti að vera hverju mannsbarni sem fylgst hefur með íþróttum undanfarin ár og áratugi kunnugur, hann er sigursælasti íþróttamaður vetrarólympíuleika frá upphafi og talað er um hann sem faðir skíðaskotfiminnar.  Hann á 45 medalíur frá HM og 13 medalíur frá Ólympíuleikum en hann tók fyrst þátt á Ólympíuleikunum 1994 í Lillehammer, leikarnir í Suður Kóreu verða því sjöundu vetrarólympíuleikarnir sem hann tekur þátt á. 

Gunnar Birgisson
íþróttafréttamaður