Krefur fyrrverandi kærustu um þrjár milljónir

13.09.2017 - 14:22
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Karlmaður, sem varð fyrir fólskulegri árás karls og konu á heimili sínu í Reykjavík í júní síðastliðnum, krefur árásarmennina tvo um þrjár milljónir í skaðabætur. Annar þeirra er fyrrverandi kærasta mannsins en hún er ákærð fyrir tilraun til manndráps. Hinn er vinur kærustunnar fyrrverandi en hann er ákærður fyrir stórhættulega líkamsárás.

Málið vakti nokkra athygli á sínum tíma en kærastan fyrrverandi sat um tíma í gæsluvarðhaldi vegna árásarinnar.

Hún sagðist í skýrslutöku hjá lögreglu hafa orðið reið og afbrýðisöm þegar einhver kona svaraði síma kærastans fyrrverandi og sagði hana hafa haft í hótunum við sig. Hún hefði því fengið vin sinn til að fara með sér að heimili kærastans fyrrverandi en fyrst komið við heima hjá sér, sótt þangað búning, linsur og grímur og hafnaboltakylfu sem átti síðan að nota til að hræða kærastan fyrrverandi og konuna.

Í ákærunni eru kærastan fyrrverandi og vinur hennar, sem bæði eru 24 ára, sögð hafa skipst á að að beita hafnaboltakylfu og slegið manninn nokkrum sinnum með kylfunni.

Kærastan fyrrverandi er síðan sögð hafa stungið manninn með hníf í brjóstkassa með þeim afleiðingum að hann hlaut djúpan skurð.  Í ákærunni kemur fram að litlu hafi mátt muna að hnífurinn snerti innri líffæri en stungan er sögð hafa legið nálægt slagæð og hefði því getað valdið alvarlegri blæðingu.

Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á mánudag. 

 

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV