Kosningar í Alsír í dag

04.05.2017 - 05:26
Erlent · Afríka · Alsír · Stjórnmál
epa05942263 An Algerian couple pass a series of election campaign posters on the streets of Algiers, Algeria, 03 May 2017. The Algerian parliamentary election will take place 04 May 2017.  EPA/MOHAMED MESSARA
 Mynd: EPA
Þingkosningar fara fram í Alsír í dag, í skugga vaxandi atvinnuleysis og efnahagsþrenginga sem rekja má til verðhruns síðustu ára á olíu. Áhugi kjósenda virðist takmarkaður, þrátt fyrir hin margvíslegu vandamál sem að þeim steðjar, segir í frétt AFP-fréttastofunnar af kosningunum. Er þetta ekki síst rakið til viðvarandi og jafnvel vaxandi vantrúar kjósenda á því, að stjórnmálastéttin standi við marggefin fyrirheit um betri tíð.

Kosningabaráttan hefur enda ekki síst einkennst af linnulitlum áróðri fyrir því að fólk mæti á kjörstað. Forsætisráðherra landsins, Abdelmalek Sellal, brýnir landa sína mjög til að kjósa og eggjar konur til að vekja karla sína snemma í dag, neita þeim um morgunkaffið og „draga þá" á kjörstað. Á kosningafundið í borginni Setif, þar sem eingöngu konur hlýddu á mál hans, hvatti hann þær til að lemja karlana með spýtu, reyni þeir að streitast á móti. 

Atvinnuleysi, húsnæðisskortur, litlar eða engar efndir loforða um úrbætur í félagslega kerfinu, skattahækkanir samhliða niðurskurði á framkvæmdum og starfsemi hins opinbera og galtómur ríkiskassi; allt eru þetta að einhverju leyti afleiðingar verðhrunsins á olíumarkaðnum 2014, en stjórnarandstaðan bendir á að það eitt og sér dugi ekki til að skýra allt sem aflaga hefur farið síðustu árin.

Þrátt fyrir allt þetta er allt útlit fyrir að ríkisstjórn Þjóðfrelsisfylkingarinnar (FLN) og Þjóðarlýðræðisflokksins (RND) haldi velli. FLN, sem hefur verið ráðandi afl í alsírskum stjórnmálum frá því landið losnaði undan nýlendustjórn Frakka 1962, er enn langstærsti flokkurinn í Alsír og er nú með 221 af 462 þingsætum. Flokkar sem hafa íslömsk gildi í hávegum ráða 60 þingsætum og hafa nú myndað kosningabandalag í von um að það skili þeim fleiri mönnum á þing. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV