Kóralrifið mikla verr farið en var talið

29.05.2017 - 04:19
Auðugt lífríki þrífst á kóralrifjum.
 Mynd: EPA  -  AAP/JAMES COOK UNIVERSITY
Kóralrifið mikla við Ástralíu er mun verr farið en áður var talið. Vísindamenn vara við því að ástandið eigi einungis eftir að versna verð ekki dregið úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

Óvenjulegar aðstæður valda því að hin annars litríku kóralrif deyja og verða hvít. Ástandið varð hvað verst í mars og apríl í fyrra vegna hlýnunar sjávar. Rannsóknir úr lofti og láði í fyrra sýndu að um 22 prósent allra grunnsjávarkóralla höfðu eyðilagst. Nú er hlutfall ónýtra kóralla orðið 29 prósent og eru horfur verulega slæmar að mati vísindamanna. Verst er ástandið nærri ferðamannabænum Port Douglas á norðausturhluta Ástralíu, að sögn AFP fréttastofunnar. Þar er talið að um 70 prósent grunnsjávarkóralla séu ónýtir. Ástandið er einnig verulega slæmt nærri Cairns og Townsville.

Margar hættur steðja að kóröllunum. Hækkandi hitastig sjávar veldur því að þörungar, sem gefa kóröllunum lit, deyja og hverfa. Frárennsli úr landbúnaði og framkvæmdir hafa einnig slæm áhrif á kórallana, auk þess sem ein tegund krossfiska nærist á þeim. Þá olli óveður miklum skemmdum snemma á árinu.
Kórallarnir geta jafnað sig ef hitastig sjávar lækkar og þörungarnir taka bólfestu í þeim að nýju. Það gæti þó tekið áratug.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV