Konur eru ekki ókeypis vinnukraftur

02.06.2017 - 15:31
Þegar borgarbarnið og einstæða móðirin Ágústa Þorkelsdóttir giftist bónda fannst henni einkennilegt að verða sjálfkrafa húsmóðir á heimilinu en ekki bóndi við hlið manns síns með sömu laun og réttindi.

Fram að þessu höfðu eiginkonur bænda almennt ekki gert kröfu til þess sem Ágústu fannst sjálfsagt. En þegar hún gerði sínar uppgötvanir og fann ójafnréttið brenna á eigin skinni var tíminn réttur og hún var einmitt manngerðin til að sinna þessari baráttu.

„Að vera húsmóðir í sveit þýðir að þú ert líka ráðskona á búinu. Þú rekur þvottahús fyrir búið og vinnustaður konunnar er líka vinnustaður allra hinna,“ segir Ágústa. Konur fengu ekki að ganga í búnaðarsambönd í sveitunum, að undanskildum ekkjum, og voru því ekki aðilar að stéttarfélagi. „Það er svo fjölbreytt að vera bóndi, og þá á ég við bæði karl- og kvenbóndi. En ég vil líka fá viðurkenningu fyrir þetta. Ég vil ekki að það sé litið alltaf á konur sem ókeypis vinnukraft.“

Þegar Ágústa hóf að vekja athygli á þessum málstað á áttunda áratugnum var henni ekki alltaf vel tekið. „Sumum þótti þetta bara óttalegt blaður. Er eitthvað að heima hjá þér? Viltu ekki bara fara heim til þín og hugsa um barnið þitt og manninn þinn. Þú ert svo athyglissjúk. Að þú skulir leggja þetta á þig, láta berja börnin þín í skólanum af því þú ert svo athyglissjúk,“ tekur Ágústa sem dæmi um þær viðtökur sem hún fékk í fyrstu.

Hér fyrir ofan má sjá brot úr öðrum þætti Brautryðjenda, sem er á dagskrá á RÚV á sunnudagskvöld. Í þáttaröðinni ræðir Eva María Jónsdóttir við konur sem hafa rutt brautina í einhverjum skilningi, fengist við störf sem teljast hefðbundin karlastörf, fetað hina hálu braut stjórnmálaframa og komið fram með nýjungar á markaði eða í listum.