Konungsfjölskyldan syrgir nautabana

19.06.2017 - 13:49
Mynd með færslu
 Mynd: AFP
Spænska konungsfjölskyldan og forsætisráðherra Spánar syrgja einn af þekktari nautabönum Spánar, Ivan Fandino, sem lést af sárum sínum í Suður-Frakklandi eftir að naut sem hann hugðist bana stakk hann í síðuna.

Gat kom á lunga Fandinos, sem var fluttur á sjúkrahús í skyndi. Samkvæmt frétt AFP-fréttastofunnar fékk nautabaninn tvö hjartaáföll á leiðinni á sjúkrahúsið, þar sem hann lést skömmu síðar. 

Sorg á Spáni

Spænska konungsfjölskyldan, stjórnmálamenn og aðrir nautabanar hafa lýst yfir sorg sinni á samfélagsmiðlum eftir að fregnir bárust af láti Fandinos. Í Twitter-færslu sagði konungsfjölskyldan hann hafa verið frábæran nautabana. Þá vottaði forsætisráðherra Spánar, Mariano Rajoy, fjölskyldu og vinum Fandinos samúð sína og sagði fráfall hans sorglegt. Menntamálaráðherra Spánar hefur einnig tjáð sorg sína.

Nautaat er mjög umdeild íþrótt og hafa dýraverndunarsinnar barist fyrir því að hún verði lögð niður. Þá hafa margir látið óánægju með íþróttina í ljós á samfélagsmiðlum í kjölfar atviksins.

Starfsbróðir og landi Fandinos, hinn 29 ára gamli Victor Barrio, dó í júlí í fyrra þegar boli rak hann á hol, og sömu örlög hlaut hinn 64 ára mexíkóski nautabani, El Pana, nokkrum vikum fyrr.