Konu leitað eftir að danskur kafbátur sökk

12.08.2017 - 10:50
Leit stendur yfir að þrítugri sænskri blaðakonu eftir að kafbátur sökk undan ströndum Danmerkur í gær. Eigandi bátsins er í haldi lögreglu og er hann grunaður um manndráp.

Kafbáturinn, Nautilus, er einn stærsti heimasmíðaði kafbátur heims. Nautilus lagði upp frá bryggju á Rafshaleöen í Kaupmannahöfn á fimmtudagskvöld, klukkan sjö að staðartíma. Talið er að tvennt hafi verið um borð: Eigandi bátsins, Peter Madsen, og konan, sem er blaðamaður.

Um klukkan hálf þrjú um nóttina hafði kærasti konunnar samband við dönsk yfirvöld, þar sem kafbáturinn hafði ekki skilað sér aftur að bryggju. Leit hófst skömmu síðar. Um klukkan hálf ellefu í gær sást til kafbátsins við Drogden Fyr, suðaustur af Amager, og í framhaldinu náðist fjarskiptasamband við Madsen. Hann segist vera að glíma við tæknilega erfiðleika, en ætla að sigla bátnum til hafnar. Skömmu síðar bjargaði hann sér hins vegar um borð í vélbát. Kafbáturinn sökk um klukkan ellefu.

Yfirvöldum skildist upphaflega að tvennt væri um borð í kafbátnum - Madsen og konan. Hann heldur því nú fram að konan hafi farið í land í Kaupmannahöfn, áður en haldið var á sjó út. Ekkert hefur hins vegar spurst til hennar. Madsen verður leiddur fyrir dómara í Kaupmannahöfn í hádeginu í dag.

Kafbáturinn Nautilus er næstum 18 metrar á lengd og vegur 33 tonn. Hann er einn af stærstu einkakafbátum í heimi.

Fréttin hefur verið uppfærð. Upphaflega stóð að Madsen hafi sagt yfirvöldum að konan væri í bátnum. Rétt er að yfirvöldum skildist að hún væri í bátnum, en ekki liggur ljóst fyrir hvort þær upplýsingar voru frá Madsen komnar eða annars staðar að.

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV