Könnun sýnir minnkandi fylgi við sjálfstæði

epa05920917 Leader of the Scottish National Party (SNP) Nicola Sturgeon (C) as she campaigns with John McNally (3-L) in Stenhousemuir, Scotland, 22 April 2017. The SNP Leader is visiting newly-developed accessible flats in the town centre and joins local
Kosningabaráttan fyrir þingkosningarnar 8. júní er komin á fullt skrið í Skotlandi sem annarstaðar á Bretlandseyjum. Skoski þjóðarflokkurinn vill helst fjölga enn fulltrúum sínum á breska þinginu - er nú með 54 af 59 fulltrúum Skota þar, en vill meira.  Mynd: EPA
Stuðningur Skota við áform Skoska þjóðarflokksins um sjálfstætt Skotland hefur minnkað mjög upp á síðkastið, ef marka má niðurstöður skoðanakönnunar sem gerð var skömmu áður en Theresa May boðaði til þingkosninga í júní næstkomandi. Könnunin, sem gerð var af Kantar-fyrirtækinu og birt verður í dag, sýnir að einungis 37 af hverjum 100 Skotum myndu velja sjálfstæði, “ef önnur þjóðaratkvæðagreiðsla yrði haldin á morgun“eins og það er orðað í spurningunni.

55 prósent aðspurðra segjast myndu kjósa að Skotland yrði áfram hluti af Stóra-Bretlandi. Það er sama hlutfall og hafnaði sjálfstæði í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2014, og hefur ekki mælst svo hátt í nokkurri könnun síðan þá. Skoski þjóðarflokkurinn, SNP, hefur talað fyrir annarri þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstætt Skotland eftir að Bretar ákváðu að segja sig úr Evrópusambandinu. Ein helstu rök SNP fyrir þessu eru að 62 prósent skoskra kjósenda vildu heldur vera áfram í ESB, en neyðast til að yfirgefa sambandið engu að síður vegna þess að Englendingar og Walesverjar vildu úrsögn. 

Nicola Sturgeon, formaður SNP og fyrsti ráðherra Skotlands, sagðist á dögunum stefna að því að halda aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstætt Skotland haustið 2018 eða vorið 2019. Theresa May hefur tekið þessum hugmyndum fálega, en breska þingið þarf að samþykkja slíka atkvæðagreiðslu ef hún á að hafa lagalegt gildi. Segir May ekki tímabært að blása til nýrra kosninga um sjálfstæði Skotlands og ef marka má þessa könnun Kantar-fyrirtækisins er skoskur almenningur á sama máli.

Samkvæmt henni styðja aðeins 26 prósent skoskra kjósenda áform SNP um aðra þjóðaratkvæðagreiðslu 2018 eða 2019; 18 prósent vilja halda hana síðar og 46 prósent segja að aldrei eigi að endurtaka þann leik. 

AFP-fréttastofan hefur eftir Tom Costley, forstjóra Kantar í Skotlandi, að kosningaþreyta og  versnandi horfur í efnahagslífinu séu mögulega hluti skýringarinnar á minnkandi stuðningi við sjálfstæði. Könnunin var gerð dagana 29. mars til 11. apríl, viku áður en May boðaði til þingkosninga.

AFP hefur eftir ónafngreindum talsmanni SNP að aðrar kannanir sýni báðar fylkingar, með og á móti sjálfstæði, nákvæmlega jafn stórar. Samkvæmt könnun sem gerð var dagana 18. - 21. apríl, það er, daginn sem May tilkynnti kosningaáform sín og dagana þar á eftir, eru 43 af hverjum 100 Skotum fylgjandi sjálfstæði, en 48 af hverjum hundrað vilja að Skotland verði áfram hluti af Stóra-Bretlandi. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV