Kona varaforseti í fyrsta sinn

14.09.2017 - 06:39
epa06202519 The new Uruguayan Vice-President and President of the Parliament General Assembly Lucia Topolansky participates in the General Assembly of Uruguay session on the resignation of Urugayan Vice-President Raul Sendic, in Montevideo, Uruguay, 13
 Mynd: EPA-EFE  -  EFE
Öldungadeildarþingmaðurinn Lucia Topolansky er fyrsta konan til að gegna embætti varaforseta Úrúgvæ. Hún tók við embættinu í gær eftir að Jose Sendic sagði af sér vegna ásakana um spillingu.

Topolansky er eiginkona Jose Mujica, fyrrum forseta landsins. Samkvæmt lögum hefði hann átt að taka við embættinu, þar sem hann er sá öldungadeildarþingmaður sem flest atkvæði hlaut inn á þingið. Mujica var hins vegar það lengi forseti að hann má ekki gegna því embætti lengur, og verður því að víkja fyrir þeim þingmanni sem næst flest atkvæði hlaut, sem er einmitt eiginkona hans.

Topolansky, líkt og eiginmaður sinn, var á sínum yngri árum vinstri sinnaður skæruliði. Hún dvaldi í 13 ár í fangelsi sem pólitískur fangi eftir að hafa tekið þátt í vopnaðri byltingu í Úrúgvæ á sjöunda og áttunda áratugnum. Hún er úr efri stéttum, en yfirgaf fjölskyldu sína til að taka þátt í byltingunni.

Hún var ein 38 kvenna sem flúði úr kvennafangelsi árið 1971. Þaðan fóru konunar í gegnum holræsi í 45 mínútur þar til þær komust í gegnum göng sem félagar þeirra höfðu grafið handan fangelsisveggjanna. Topolansky var í felum í nokkra mánuði áður en hún náðist aftur og var sett í einangrun.

Breska ríkisútvarpið segir hana tala lítið um vopnaða baráttu sína á yngri árum. Hún hefur þó sagt frá vopnuðum ránum sem hún tók þátt í. Árum saman hefur sá orðrómur verið á kreiki að hún hafi verið ein besta skyttan í hópi byltingarsinna. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV