Koma til Íslands til að mynda tófuna

18.04.2017 - 11:57
Á eyðibýlinu Kvíum í Jökulfjörðum hefur hópur breskra ljósmyndara dvalið í nokkra daga. „Aðaltilgangur ferðarinnar er að mynda tófuna. Þetta er einhver besti staðurinn til þess. Það er þess vegna sem að við komum. - Við tökum líka landslags- og fuglamyndir en það er í raun tófan sem fær okkur til að koma hingað,“ segir Terry Whittaker, leiðsögumaður hópsins.

Ferðaþjónustufyrirtækið Borea Adventures sér um ferðalangana, flytur þau í Kvíar, gefur þeim að borða og passar að þeim líði vel. „Auðvitað er þetta þolinmæði, stundum sjáum við mikið, stundum lítið. Þetta er ekki dýragarður svo við tökum því bara eins og náttúran er,“ segir Rúnar Óli Karlsson, eigandi Borea Adventures.

Terry segir að það sé oft vandasamt að finna húsnæði fyrir svona hóp að vetri til og því kom húsið að Kvíum sér vel en Borea Adventures, hefur undanfarin ár unnið að því að gera húsið að Kvíum upp. „Við vorum að velta fyrir okkur hvort það væri ekki hægt að finna eitthvað eyðibýli í Hornstrandarfriðlandinu sem væri hægt að gera eitthvað skemmtilegt með. Að búa til eins og kallast í Ameríku, svona „lodge,“ sem er ekki beint fjallaskáli en staður þar sem þú getur notið náttúrunnar á þínum forsendum. Hvort sem að þú hefur áhuga á skíðum eða fjallahjólum eða kayak eða hvað það nú er, þá vildum við búa til svoleiðis stað. Svona ævintýraland. Og við töluðum við eigendur hússins sem voru mjög spenntir fyrir þessu verkefni. Og við erum bara með húsið í fóstri,“ segir Rúnar Óli.

Landinn slóst í för með ljósmyndurunum. Þáttinn í heild er hægt að sjá hér. 

 

Mynd með færslu
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV
Landinn