Kom í veg fyrir bann við griðaborgum

epa05821969 A United States Border Patrol (USBP) agent vehicle sits next to a wall and fence along the Rio Grande River on the United States side near McAllen, Texas, USA, 28 February 2017. The nearly two thousand mile Mexico-United States border is the
 Mynd: EPA
Alríkisdómstóll í Bandaríkjunum kom í veg fyrir bann Texasríkis við svokölluðum griðaborgum. Lögin áttu að taka gildi í Texas á morgun. Dómurinn er stórsigur fyrir hópa sem berjast fyrir réttindum innflytjenda í Bandaríkjunum, en ósigur fyrir forsetann.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, vill ólmur losna við griðaborgir sem finna má víða í Bandaríkjunum. Í þeim borgum eru ólöglegir innflytjendur látnir óáreittir svo framarlega sem þeir gerast ekki brotlegir við lög.  Forsetinn hefur meðal annars hótað því að minnka útgjöld ríkisins til griðaborga.

Margir ólöglegir innflytjendur óttuðust að vera beðnir um skilríki þegar þeir leituðu skjóls vegna fellibylsins Harvey sem reið yfir Texas í vikunni. Fjöldi þeirra hélt sig því fjarri neyðarskýlum sem komið var upp. Borgaryfirvöld í Houston lýstu því yfir á Twitter að enginn yrði beðinn um skilríki við skýlin. 

Lögin sem dómstóllinn kom í veg fyrir ganga undir nafninu SB4. Réttindasamtökin Jolt fögnuðu úrskurði dómarans. Guardian hefur eftir yfirlýsingu þeirra að lögin séu ein róttækustu lög sem beint hefur verið gegn innflytjendum og þá sérstaklega gegn innflytjendum frá rómönsku Ameríku. Þá hefðu lögin geta orðið til þess að kjörnir embættismenn yrðu að víkja úr embætti ef þeir mæltu gegn lögunum.

Í úrskurði dómarans segir að lögin stangist á við alríkislög og brjóti í bága við stjórnarskrá Bandaríkjanna.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV