Kólera breiðist hratt út í Jemen

19.05.2017 - 14:49
epa05970053 Cholera-infected Yemeni children lie outside their family?s makeshift shelter at a camp for Internally Displaced Persons (IDPs) in the northern province of Amran, Yemen, 17 May 2017. According to UN figures, two years of escalating conflict in
Þrjú börn sem veikst hafa af kóleru liggja framan við fjölskyldutjaldið í flóttamannabúðum í norðurhluta Jemens.  Mynd: EPA
Útlit er fyrir að allt að þrjú hundruð þúsund manns eigi eftir að veikjast af kóleru í Jemen næsta hálfa árið, að sögn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Sérfræðingar stofnunarinnar óttast það sem koma skal. Faraldurinn blossaði upp í október: Hátt í 23.500 hafa veikst nú þegar og 242 dáið, eftir því sem næst verður komist. Síðast í gær létust tuttugu og 3.460 ný tilfelli voru skráð.

Nevio Zagaria, fulltrúi Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar í Jemen, segir að farsóttin breiðist út með áður óþekktum hraða. Kólera er bráðsmitandi og berst manna á milli með menguðu vatni og matvælum. Afar slæmt ástand er í Jemen vegna stríðs í landinu tvö síðastliðin ár. Tveir þriðjuhlutar þjóðarinnar eiga vart til hnífs og skeiðar.

Zagaria segir að starfsmenn mannúðarsamtaka komist ekki til allra hluta landsins vegna stríðsins. Því er mögulegt að enn fleiri en eru skráðir hafi veikst af kólerunni.

Frá því í mars 2015 hafa yfir átta þúsund manns látið lífið vegna stríðsástandsins. Um það bil fjörutíu þúsund hafa særst.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV