Kolefnisgjald í andstöðu við venjur?

24.11.2011 - 12:41
Mynd með færslu
Tvísköttun á stóriðjuna í formi kolefnisgjalds veldur því að fyrirtæki flytja til landa sem ekki taka þátt í átaki gegn útblæstri. Þetta segir sérfræðingur í orkumálum.

Sérfræðingur í orku- og auðlindamálum segir það óheppilegt fyrir bæði atvinnulífið og umhverfið, að leggja kolefniskjald á stóriðju. Hann segir að gjaldið feli í sér tvísköttun.

Leggja á kolefnisgjald á rafskaut í orkufrekum iðnaði frá ársbyrjun 2013 samkvæmt frumvarpi sem fjármálaráðherra hefur mælt fyrir. Frumvarpið hefur verið gagnrýnt harðlega og hefur meðal annars forstjóri Elkem á Íslandi sagt að engar forsendur séu fyrir rekstri fyrirtækisins ef skatturinn verður lagður á.

Gunnar Tryggvason, sérfræðingur í orku- og auðlindamálum hjá KPMG, var kallaður á fund efnahags- og viðskiptanefndar í gær til að ræða kolefnisgjaldið. Gunnar segir ljóst að ef gjaldið verður sett á, þýði það tvísköttun á stóriðju. Hann segir að í Evrópu sé útblástur skattlagður með tvennskonar hætti. Stóriðjan þurfi að verða sér úti um útblástursheimildir og borga fyrir þær, allir aðrir borgi skatt þegar þeir kaupi hráefni, svo sem olíu eða kol.

„En það þekkist ekki að einn aðili sé settur í bæði kerfin ef svo má segja með mjög einföldum hætti,“ sagði Gunnar í viðtali við fréttastofu RÚV.

Gunnar segir slíkt kerfi ekki vænlegt til árangurs. „Vegna þess að þá eru menn að taka áhættuna á því að slíkir aðilar verði tvískattlagðir, það gerist sjálfkrafa, og flytji starfsemina úr landi, eða að hún flytji til þeirra landa sem taka ekki þátt í neinu slíku átaki gegn útblæstri,“ sagði Gunnar.
Aðspurður hvort þetta væri hrein og klár tvísköttun, sagði hann: „Já það stefnir í það,“ sagði Gunnar.
Hann sagði að sér þætti tvísköttunin óheppileg, bæði fyrir atvinnulífið og séð út frá umhverfissjónarmiði.