Klippir kaldastríðsmynd Charlize Theron

20.07.2017 - 14:09
Kvikmyndagerðarmaðurinn Elísabet Rónaldsdóttir lauk nýverið við klippingu á spennumyndinni Atomic Blonde. Óskarsverðlaunaleikkonan Charlize Theron framleiðir myndina auk þess að fara með aðahlutverk. Myndin hefur vakið mikla hylli erlendis, en upphaflega var um að ræða sjálfstæða framleiðslu sem eitt stærsta myndverið vestanhafs tók upp á sína arma.

„Universal voru svo ánægð með hana og tóku yfir, ég held að þau hafi eytt jafnmiklu og við eyddum í myndina bara í að kynna hana. Myndin hét upphaflega The Coldest City en þau breyttu nafninu í Atomic Blonde,“ segir Elísabet. Myndin er byggð á myndasögunni The Coldest City eftir Antony Johnston og Sam Hart frá árinu 2012. Hún fjallar um spæjara í MI6, á vegum hennar hátignar, sem þarf að leita uppi lista með gagnnjósnurum. Myndin gerist í Berlín og er borgin í stóru hlutverki, auk þess sem tónlist níunda áratugarins kryddar myndina á áberandi hátt.

Kaldastríðsmynd og karakter án hliðstæðu

Gagnrýnandi vefritsins The Hollywood Reporter, John Defoe, var jákvæður, en lýsti myndinni sem einskonar Bond með kvenkyns-karakter í hlutverki. „Nei, ég er nú ekki alveg sammála því“, segir Elísabet. Mér finnst Lauren Broton eins og karakterinn hennar heitir, vera bara sinn eiginn, ég held að það sé erfitt að finna einhverja hliðstæðu í kvikmyndsögunni fyrir hennar karakter.“

Mynd með færslu
 Mynd: ER  -  Twitter
David Leitch, leikstjóri myndarinnar, ásamt Elísabetu.

Sagan gerist árið 1989 og fall múrsins og samfélagsleg umbrot tímabilsins fá að njóta sín í myndinni. „Þetta er dálítið flókin saga. Hún fjallar í grunninn um fólk sem hefur margt að fela og mörg leyndarmál að halda og þau eru í rauninni hætt að geta talað eða kynnst öðru fólki,“ segir Elísabet.

„Í mínum huga bara dans“

Mikið er um slagsmál í myndinni. „Þetta er ekki fyrir fólk sem kann ekki við ofbeldismyndir. Þetta er ekki einhver pyntingamynd, en það er mikið slegist. Sem í mínum huga er bara dans, það er allt kóreógraferað í tætlur, það er enginn laminn í alvörunni. Þetta eru danshreyfingar í rauninni.“

Aðspurð hvort að klipping slíkrar myndar sé meira krefjandi en önnur verkefni svarar hún að í verkefni af þessari stærðargráðu sé hugsað fyrir öllu. „Það er mjög erfitt [að klippa] ef það er skotið þannig að fólk viti ekki hvað það er að gera, en þetta er allt skipulagt bara áður en myndin byrjar. Þá er farið í gegnum alveg hvernig eigi að vinna allar slagsmálasenurnar.“

epa06093332 South African actress and cast member Charlize Theron (R) takes selfies with fans during the film premiere of 'Atomic Blonde' at the Theater am Potsdamer Platz in Berlin, Germany, 17 July 2017. The movie opens across German theaters
 Mynd: EPA
Charlize Theron sinnir aðdáendum á frumsýningu myndarinnar í Berlín

Fylgdi verkefninu í ár

Hún tekur fram að vinnsla og umgjörð myndarinnar hafi verið sérlega fagleg. „Það eru jafnvel tekin upp vídjó og klipptar saman hugmyndir um þessar hreyfingar. Þannig að það er rosalega mikil vinna sem fer í þetta áður en ég fæ í rauninni að komast inn í. Það er mjög auðvelt og skemmtilegt að klippa eitthvað þar sem er svona vandað til verks, þannig að ég hef mikla ánægju af þessu,“ segir hún.

Sem klippari myndarinnar fylgir Elísabet verkefninu eftir í langan tíma, sérstaklega í jafn stóru verkefni og hér um ræðir. „Það er alveg árið sem fer í þetta. Ég kem aktívt inn og mæti á staðinn svona 2-3 vikum áður en farið er í tökur, og svo kveður maður bara í frumsýningarpartýinu. Þá er maður laus.“

Byrjuð að vinna að Deadpool 2

Elísabet situr þó ekki auðum höndum enda er eftirspurnin eftir færum kvikmyndaklippurum mikil. Hún er því strax haldin af stað í næsta verkefni, sem er að auki hennar stærsta verkefni til þessa. „Núna erum við í Kanada, og erum að vinna Deadpool 2, sem er líka voða gaman. Það er stærsta verkefni sem ég hef tekið að mér, stærsta budget, stærsta ... hvað á maður að segja, mynd sem hefur vakið athygli áður.“

Andhetjan í aðalhlutverki

Deadpool 2 er framhaldsmynd fyrri Deadpool myndarinnar sem kom út árið 2016. Hún byggir á myndasögu frá Marvel myndasögurisanum, og eru höfundar hennar listamaðurinn Rob Liefeld og rithöfundurinn Fabian Niceza.  Myndin fjallar um persónuna Wade, öðru nafni Deadpool, sem er einskonar andhetja í aðahlutverki, eða „vondur kall“. Upphaflega var hann skrifaður sem óvinur hetjanna í Marvel heiminum en fékk þó sinn eigin vettvang þar sem hans sjónarhorn og baksaga fékk að njóta sín. Þessi nálgun hefur gefist vel í seinni tíð en kvikmyndin Maleficent frá árinu 2014 er af svipuðum toga, þar sem „vonda drottningin“ í ævintýrinu um Þyrnirós fékk sína eigin sögu og bíómynd.

„Þetta er mynd númer tvö, fyrsta myndin vakti dálítið mikla athygli þannig að það er mikil pressa á okkur. En við tökum því bara fagnandi og ætlum að reyna að vera fyrstu myndinni til sóma. Hún var mjög vel gerð og skemmtileg,“ segir Elísabet.

Brosað gegnum tárin á þriðjudag

„Atomic Blonde var heimsfrumsýnd í Berlín í fyrradag, en við komumst ekkert [á staðinn] af því að við erum bara að vinna. En við ætlum öll að fljúga yfir. Það er svona hópur af okkur sem er núna á Deadpool 2, sem var á Atomic, þannig að við ætlum öll að fara saman og taka semi-partý á mánudaginn. Svo er bara vinna á þriðjudaginn. Þetta verður mjög skrautlegur þriðjudagur, við munum brosa í gegnum tárin, við munum lifa það af,“ segir Elísabet kímin. 

Atomic Blonde verður frumsýnd hér á landi þann 9. ágúst.

Elísabet Rónaldsdóttir var í viðtali við Síðdegisútvarp Rásar 2.

Mynd með færslu
Nína Richter
vefritstjórn
Síðdegisútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi