Klassísk deila hjá nýjum flokki

16.05.2017 - 18:43
Mynd með færslu
Ágreiningur Pírata um innra starf þingflokksins er klassísk deila hjá nýjum stjórnmálaflokki sem er að koma sér fyrir á sviði stjórnmálanna segir Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði. Dæmin sanni að raunveruleikinn taki síðan ráðin af mönnum og skipulagið leggist á hefðbundnari brautir. 

Ásta Guðrún Helgadóttir steig óvænt til hliðar sem þingflokksformaður Pírata í gær vegna ágreinings við meirihluta þingflokksins um innra skipulag hans. Ásta Guðrún vill fara hefbundnari leiðir þannig að þingflokksformaður sé málsvari þingflokks gagnvart þinginu. Meirihluti þingflokks vilji hins vegar dreifa valdi eins og Ásta Guðrún sagði í fréttum í gær og skipta stöðunni í nokkrar stöður.

„Þetta er auðvitað svona klassísk deila má segja í nýjum stjórnmálaflokki sem að er að koma sér fyrir inni í meginstraumi stjórnmálanna ef við getum sagt. Það er segin saga að stjórnmálaflokkar koma oft fram með alls konar hugmyndir um breytt vinnubrögð og annars konar skipulag heldur en gengur og gerist,“ segir Eiríkur. Síðan tekur nú raunveruleikinn oft ráðin af mönnum og þeir þurfa að skipuleggja sig og þá fer þetta að leggjast í hefðbundnari brautir.“

Eiríkur segir að nærtækasta dæmið sé Björt framtíð sem reyndi að halda flötum strúktúr úti en eftir uppgjör flokksins fyrir síðustu kosningar hafi innra skipulag lagst í hefðbundnari farveg. „Sama má kannski segja um Kvennalistann sem hóf jú sína starfsemi með alveg flatan strúktúr og engan formann og svo framvegis en það má líka segja að þar hafi skipulagið stofnanagerst eftir því sem leið á.“