Kjör starfsmanna í samræmi við kjarasamninga

05.09.2017 - 18:27
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Upplýsingar sem komu fram í gögnum frá veitingastaðnum Sjanghæ á Akureyri, standast almenna kjarasamninga og launataxta sem að gilda á veitingahúsum, eftir því sem að fram kemur í tilkynningu frá stéttarfélaginu Einingu-Iðju.

Á miðvikudagskvöld greindi fréttastofa frá því að stéttarfélagið Eining-Iðja væri í vinnustaðareftirliti á veitningarstaðnum Sjanghæ á Akureyri.

Ástæðan væri ábendingar um vinnumansal

Áður hafði fréttamaður RÚV fengið staðfest hjá stéttarfélaginu að ástæða eftirlitsferðarinnar væri ábendingar um að á veitingastaðnum væri stundað vinnumansal. Í tilkynningu á heimasíðu Einingar-Iðju segir að upplýsingar sem komu fram í umfjöllun fjölmiðla um málið hafi ekki komið frá starfsmönnum félagsins.

Upphringing um starfsmenn á veitingahúsi

Tilefni þess að fréttastofa fór að grennslast fyrir um þessi mál er að Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, hafði greint frá ábendingum um brot á erlendum starfsmönnum í Síðdegisútvarpinu á Rás 2, 24. ágúst síðastliðinn. Þar sagðist hann, þann sama dag, hafa fengið upphringingu um kínverska starfsmenn á ótilgreindu veitingahúsi á Íslandi. Þar hafi verið fullyrt að þeir hafi borgað hundruð þúsunda króna til þess að fá að koma til Íslands til að vinna. Þeir væru hér á kjörum sem teljist í tugum þúsunda á mánuði og með vinnutíma sem sé ómældur.

Ekkert óeðlilegt hafi fundist í gögnum

Eftir vinnustaðaeftirlitið á miðvikudag, afhentu eigendur staðarins Einingu-Iðju ráðningarsamninga, launaseðla, bankastaðfestingar og fleiri gögn sem tengjast réttindum starfsfólksins. Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, segir að á launaseðlum komi fram upplýsingar um allar launagreiðslur starfsmanna, húsaleigu og fæðispeninga. Hann segir að þar með sé málinu lokið af hálfu stéttarfélagsins. Þar sem ekkert óeðlilegt hafi fundist í öllum þessum gögnum sé frekari skoðunar ekki þörf að svo stöddu.