Kjarnaborun hafin í Surtsey

10.08.2017 - 22:43
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Kjarnaborun í Surtsey hófst í morgun, 11 dögum eftir að bor og annar búnaður var fluttur út í eyjuna. Klukkan átta í kvöld var borinn niður kominn niður á 31 metra dýpi en ætlunin er að holan verði allt að 210 metra djúp. Áður hefur verið reynt að ná því dýpi en árið 1979 þurftu menn að hætta borun á 180 metra dýpi.

Þetta kemur fram á Facebook-síðu Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands í kvöld en áformað er að verkinu ljúki um næstu mánaðarmót. 

Undirbúningur fyrir verkið hófst í lok síðasta mánaðar.  Þá flutti þyrla Landhelgisgæslunnar borinn sem notaður er en vinnubúðir, vistir, eldsneyti og annað sem þurfti var flutt frá varðskipinu Þór í tæplega 100 ferðum.  Fram kom í fréttum RÚV að þetta væri stærsta og flóknasta framkvæmd af þessum togum sem unnin hefði verið hér á landi.
 

Surtsey var friðuð 1965 og strangar reglur gilda um þá sem þangað fara. Til að mynda þurfa þeir að gæta þess að hreinsa allan fatnað og farangur áður en lagt er af stað til að tryggja að engar lífverur og plöntuhlutar berist til Surtseyjar þannig að landnám og þróun lífs eigi sér stað án tilstuðlan mannsins.