Kirkjuráð krefur prest á Staðastað um jörðina

17.02.2017 - 14:21
Kirkjuhúsið
 Mynd: RÚV
Kirkjuráð samþykkti á fundi sínum í síðustu viku að óska eftir því að sr. Páll Ágúst Ólafsson, sóknarprestur í Staðastaðarprestakalli á Snæfellsnesi, skili jörðinni til Kirkjumálasjóðs þar sem biskup hafi leyst hann undan búsetuskyldu. Framkvæmdastjóri kirkjuráðs segir að húsið geti ekki staðið autt en jörðin hefur einnig tekjur af laxveiði.

Páll var kosinn sóknarprestur fyrir tæpum fjórum árum en fljótlega eftir að hann flutti ásamt fjölskyldu sinni í prestsbústaðinn á Staðastað komu upp veikindi í fjölskyldunni og nánari eftirgrennslan sýndi að húsið væri óíbúðarhæft vegna myglu.

Kirkjumálasjóður réðst því í umfangsmiklar endurbætur á húsinu en þegar prestsfjölskyldan fluttist aftur í bústaðinn tóku veikindi í fjölskyldunni sig upp að nýju - hún flutti því aftur úr húsinu og þjónar sr. Páll því sókninni frá Borgarnesi þar sem hann keypti sér íbúð og býr. 

Biskup leysti síðan sr. Pál undan búsetuskyldu sinni í desember á síðasta ári við litla hrifningu sumra sóknarbarna í Staðastaðaprestakalli. Oddur Einarsson, framkvæmdastjóri kirkjuráðs, segir í samtali við fréttastofu að gengið hafi verið úr skugga um að enginn mygla væri í húsinu - ekki væri þó hægt að rengja veikindin í fjölskyldunni. 

Hann segir að húsið geti þó ekki staðið autt og því hafi kirkjuráði þótt eðlilegt að presturinn skili jörðinni en samkvæmt upplýsingum fréttastofu fylgja henni tekjur af laxveiði. Oddur segir að kirkjan sé nú í samningaviðræðum við sóknarprestinn um bætur en sáttatilboði hennar hafi verið hafnað. „Við höfum sent ítrekuð tilmæli um sáttafund og vonumst bara til að að hann þekkist það góða boð.“

Sr. Páll Ágúst vildi ekki tjá sig um málið þegar fréttastofa leitaði eftir viðbrögðum hans. Sr. Páll hefur áður verið í fréttum vegna annarra mála - hann var ásamt móður sinni, Dögg Pálsdóttur, dæmdur til að greiða Sögu Capital 300 milljónir vegna kaupa á stofnfjárbréfum í Spron.