Kínverjar áhugasamir um höfn í Finnafirði

05.09.2017 - 10:12
Mynd með færslu
 Mynd: Bremenport
Kínverskt skipafélag kynnti sér í sumar áformin um stórskipa- og olíuþjónustuhöfn í Finnafirði. Sveitarstjóri Langanesbyggðar, og fulltrúar íslenskra stjórnvalda, áttu þá fundi með fyrirtækinu.

Vísir.is sagði fyrst frá þessu. Þar segir að skipafélagið Cosco Shipping hafi séð kynningu á verkefninu í Kína og fulltrúar fyrirtækisins nýtt sér ferð hingað til lands til að kynna sér það betur. 

Alls voru haldnir þrír fundir 25.-27. júní, skipulagðir af EFLU verkfræðistofu, með aðkomu Langanesbyggðar. Í skýrslu á síðasta fundi sveitarstjórnar segir Elías Pétursson, sveitarstjóri Langanesbyggðar, að fundirnir hafi verið áhugaverðir og gengið vel. Sveitarstjórn muni fljótlega fá minnisblað frá kínverska fyrirtækinu vegna ferðarinnar.