Kaupmáttur ungs fólks aukist lítið sem ekkert

18.05.2017 - 08:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fólk yngra en þrítugt hefur notið hér um bil engrar kaupmáttaraukningar undanfarin ár á meðan ráðstöfunartekjur þeirra sem notið hafa mestrar kaupmáttaraukningar hafa aukist um þriðjung. Konráð S. Guðjónsson í greiningardeild Arion banka segir að skilið hafi á milli aldurshópa í efnahagslegum skilningi í síðasta góðæri.    

„Síðan fyrir það og eftir það hefur það fylgt ágætlega en þarna myndaðist bilið,“ sagði Konráð í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Fjallað var ítarlega um greiningu Arion í fréttum RÚV á þriðjudag. 

„Síðan verður að nefna það að eiginlega allir hópar hafa notið góðs og það sem meira er að það virðist sem tekjujöfnuður hefur, ef eitthvað er, aukist eða staðið nokkurn veginn í stað.“

Konráð tók undir með dagskrárgerðarmönnum þáttarins að það væri þvert á umræðuna í samfélaginu.  „Já, það er alveg hárrétt. Maður á mjög erfitt með að sjá að það passi við gögnin að tala um ójöfnuð varðandi tekjur en þá er kannski meira verið að tala um eignadreifingu hefur orðið nokkuð ójafnari, sérstaklega milli hópa og örlítið heilt yfir.“

 
 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Morgunútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi