Kauphöllin fagnar afléttingu hafta

13.03.2017 - 08:27
Mynd með færslu
Húsnæði Kauphallar Íslands.  Mynd: Ja.is  -  Skjáskot
Páll Harðarson forstjóri Kauphallarinnar segir afnám fjármagnshaftanna hafa mikla þýðingu fyrir Kauphöllina og geti laðað að erlent fjármagn til langtíma. Hann segir að aðstæður til afléttingarinnar hafi verið nánast fullkomnar.

 

Ákvörðun stjórnvalda um að aflétta fjármagnshöftum af almenningi, fyrirtækjum og lífeyrissjóðum frá og með morgundeginum, hefur almennt mælst vel fyrir hjá stjórnmálamönnum og stjórnendum fyrirtækja. Forstjóri Kauphallarinnar segir aðgerðina hafa mikla þýðingu.

„Þetta hefur gríðarlega mikla þýðingu að mínu viti fyrir það að íslenskur verðbréfamarkaður öðlast nýjan og aukinn trúverðugleika meðal fjárfesta og þá ekki síst erlendra fjárfesta,“ segir Páll Harðarson forstjóri Kauphallarinnar. 

Hann telur að til lengri tíma litið geti þetta orðið til að laða að aukið fjármagn og þá ekki síst erlent fjármagn.

„Og þá sérstaklega erlent langtíma fjármagn sem gæti leitað inn íslensk fyrirtæki á hlutabréfamarkaði.

Páll telur að þetta geti einnig leitt til fleiri skráninga í Kauphöllinni.

„Höftin hafa verið ákveðinn þröskuldur fyrir þessa fjárfesta að koma inn á markaðinn og um leið og markaðurinn verður aðgengilegri í huga fjárfesta, þá held ég að þetta geri hann jafnframt að meira aðlaðandi skráningarvettvangi. Eykur möguleika fyrirtækja til að afla sér fjármagns og þar af leiðandi styrkir hann að því leyti líka.“

Páll segir að ef allt gangi  eftir muni þetta verða til að auka trúverðugleika og mögulega  minnka kröfuna á íslensk ríkisskuldabréf og almennt á ávöxtunarkröfu sem gerð er til íslenskra verðbréfa. Vonast sé til að lánshæfismat hækki í framhaldinu. Hann segir að aðstæður til að aflétta höftunum hafi verið nánast fullkomnar.

„Já, algjörlega. Ég hef verið þeirrar skoðunar, eins og ég held að margir séu, að aðstæðurnar gerist ekki betri en nú. Þetta eru um það bil hinar fullkomnu aðstæður til að afnema höftin,“ segir Páll Harðarson forstjóri Kauphallarinnar. 

 

 

Mynd með færslu
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV