Kaup Everton á Gylfa sögð í uppnámi

08.08.2017 - 18:05
Mynd með færslu
 Mynd: Tomasz Marian Kolodziejski  -  RÚV
Breska blaðið Telegraph segist hafa heimildir fyrir því að kaup Everton á Gylfa Þór Sigurðssyni frá Swansea séu í uppnámi og að Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Everton, sé orðinn mjög pirraður á stöðunni. Félögin eru sögð hafa náð munnlegu samkomulagi um að kaupverð Gylfa ætti að vera 45 milljónir punda en síðan hafi Everton reynt að semja upp á nýtt.

Telegraph segist hafa heimildir fyrir því að deilan félaganna tveggja snúist um fimm milljónir punda. Everton hafi samþykkt að greiða 45 milljónir punda fyrir Gylfa með þeim fyrirvörum að Swansea fengi engar árangurstengdar greiðslur. 

Sky Sports segja á vefsíðu sinni að þeir hafi heimildir fyrir því að viðræðum milli félaganna tveggja hafi hreinlega verið slitið og að þær hafi staðið í fimm vikur.

Heimildarmenn Telegraph innan úr herbúðum Everton óttast nú að þessi hnútur geti leitt til þess að Swansea slíti samningaviðræðum og Gylfi verði því áfram í röðum velska félagsins.

Gylfi hefur ekki spilað einn æfingaleik með Swansea á undirbúningstímabilinu og fór ekki með í æfingaferð til Bandaríkjanna. Hann hefur sjálfur lýst því yfir að hann vilji fara til Everton. Swansea hefur jafnframt sagt að ekki verði hægt að neyða félagið til að selja íslenska landsliðsmanninn.

Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Everton, hefur verið duglegur á leikmannamarkaðinum í sumar  - Gylfi átti þó alltaf að vera aðalkaup félagsins fyrir komandi tímabil. Koeman er sagður vera sannfærður um að Gylfi geti verið lykillinn að því að koma Everton í baráttu um meistaradeildarsæti.  

 

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV