Karl stefnir lögmanni bróður síns fyrir dóm

10.08.2017 - 12:23
Mynd með færslu
Steingrímur og Karl Wernerssynir.  Mynd: RÚV
Athafnamaðurinn Karl Wernersson hefur höfðað dómsmál gegn lögmanni bróður síns til að fá afhent skuldabréf sem lögmaðurinn hefur í vörslum sínum. Í kjölfar efnahagshrunsins 2008 risu deilur á milli bræðranna Karls og Steingríms Wernerssona, Steingrímur sakaði Karl bróður sinn meðal annars um að hafa framið margvísleg brot í rekstri fjárfestingafélagsins Milestone. Þeir hafa síðan báðir verið dæmdir til þungra fangelsisrefsinga.

Bræðurnir sömdu svo um uppgjör á eignum sínum og skuldum, og í því uppgjöri fólst að Steingrímur hélt eftir umræddu skuldabréfi og að það yrði í vörslu lögmanns hans, Sigmundar Hannessonar. Samkvæmt heimildum fréttastofu telur Karl nú að Steingrímur hafi ekki staðið við sinn hluta uppgjörsins og vill jafna það, meðal annars með því að taka yfir skuldabréfið, sem mun vera nokkurra milljóna króna virði.

Sigmundur hefur hins vegar neitað að afhenda bréfið – telur sér það ekki heimilt – og því hefur Karl höfðað aðfararmál fyrir Héraðsdómi gegn Sigmundi til að fá bréfið. Málið verður tekið fyrir 15. september.