Kamar smekkfullur af töskum

07.06.2017 - 15:26
Mynd með færslu
 Mynd: Halla Eyþórsdóttir  -  facebook.com
Ferðamenn sem voru á leið um Berufjörð í gær gistu þar á áningastað, notuðu salerni Vegagerðarinnar sem farangursgeymslu og læstu því með hengilás. Fólkið svaf svo í bílunum við klósettið. Halla Eyþórsdóttir sem sér um klósettin segir að ódýrt sé að ferðast um landið á þennan hátt.

Vegagerðin hefur sett upp þrjátíu salerni víðsvegar um landið. Tvö þeirra voru sett við Fossá í Berufirði á fimmtudaginn var og hefur Vegagerðin samið við landeigendur um að sjá um eftirlit og þrif á þeim.

Halla tók að sér að þrífa salernin við Fossárbrú og Vegagerðin kemur einu sinni í viku til að tæma þau. Halla vitjar um klósettin einu sinni á sólarhring.  Í gær var hún seint á ferð - það var komið vel fram yfir miðnætti þegar hún kom til að þrífa klósettin.  

„Ég fer bara með vatnskútinn með sápuvatninu og ætla að ráðast í þrifin og þá er bara hengilás á annarri klósetthurðinni. Ég vissi ekki alveg hvað var í gangi, hengilás á almenningssalerni, þetta er eitthvað sem ég átti ekki von á.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Ferðamenn sváfu í bílunum við klósettin

Fyrst hélt Halla að einhver væri að atast í sér eða að starfsmaður Vegagerðarinnar hafi ákveðið að loka klósettinu. Henni þótti það ekki líklegt og því ákvað hún að brjóta upp lásinn. Þrír bílar voru á bílastæðinu við salernin.

„Ég vissi ekki hverju ég átti von á en í ljós kom að fólkið sem svaf þarna í bílunum notuðu salernið sem töskugeymslu. Kamarinn var alveg smekkfullur. Ég hugsa að það hafi verið einar sex töskur þarna inni.“

„Ég skil bara ekki hvernig nokkur hefur geð í sér að geyma fötin sín og farangur inn á almenningssalerni. En smekkur fólks er misjafn sýnilega.“

Ferðamennirnir fóru síðan um morguninn. 

„Er eitthvað sem þarf að gera til að fyrirbyggja að svona gerist?  Veistu það ég bara veit það ekki þetta er svo nýtt fyrir mér að ég ég er enn bara svo hissa, undrandi.“   

„Þetta er náttúrulega fyndið - en þetta er gríðarleg frekja. Það er ofsalega ódýrt að ferðast um Ísland svona.“

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV