Kaffið barst um heiminn frá Jemen

11.03.2017 - 13:36
Jemen er í dag fátækasta land Arabaheimsins og glímir við ómældar hörmungar vegna stríðs stjórnvalda og uppreisnarmanna síðustu tvö árin. En á öldum áður var Jemen eitt auðugasta svæðið á þessum slóðum og miðstöð verslunar og viðskipta. Meðal þess sem fyrst var flutt út í heim frá Jemen var kaffið.

Í ljósi sögunnar fjallar um sögu Jemens allt frá því á dögum Gamla testamentisins og fram á sextándu öld, en í þeirri viðburðaríku sögu lék kaffið mikilvægt hlutverk.

Hirðingjar fundu undraverð ber

Kaffiplantan vex villt á hálendi Eþíópíu. Á henni vaxa lítil rauðleit ber, og einhverntímann aftur í öldum hefur einhver af hirðingjaþjóðunum sem þar halda til uppgötvað undraverða eiginleika frænna inni í berjunum — það sem við köllum kaffibaunirnar.

Í kjölfarið kom svo önnur uppgötvun — að hægt væri að rista græn fræin þar til þau urðu brún á lit, mala þau niður og blanda saman við heitt vatn.

Eþíópísku hirðingjarnir nýttu sér þessa nýju uppgötvun sína, en næstu straumhvörf í sögu kaffisins urðu síðar, þegar kaffiplantan barst yfir Rauða hafið til suðvesturhorns Arabíuskagans, þar sem nú er Jemen.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Jemenska fjalllendið þar sem kaffið var fyrst ræktað.

Kaffi gott á löngum bænastundum

Jemen er frjósamt land og þar höfðu bændur um árabil ræktað kryddjurtir til útflutnings. Jemenskir bændur voru að öllum líkindum fyrstir til að fara að rækta kaffiplöntuna á skipulagðan hátt.

Kaffineysla sló í gegn í Jemen, ekki síst meðal jemenskra súfista, sem aðhyllast íslamska dulspeki. Þeir tóku eftir því að með kaffidrykkju gátu þeir aukið einbeitingu og haldið sér vakandi í gegnum langar bænastundir.

Þeir nefndu drykkinn qahwa, arabískt orð sem upphaflega merkti vín — en áhrif vínsins og kaffisins voru svipuð í augum fyrstu kaffidrykkjumannanna.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons

Frá Mekku og út í heim

Jemenskir pílagrímar tóku kaffibaunir með sér til borgarinnar helgu, Mekku, og þar hrifust borgarbúar og aðrir pílagrímar, sem voru komnir hvaðanæva að, af þessum undraverða drykk.

Í byrjun sextándu aldar hafði drykkurinn þannig breiðst út víða um hinn íslamska heim og fyrstu kaffihúsin voru byrjuð að ryðja sér rúms í helstu borgum, eins og Kaíró, Aleppó og Konstantínópel.

Frá Tyrkjaveldi ferðaðist svo kaffið á lengra vestur til Evrópu og breiddist að lokum um allan heim.

Græddu á tá og fingri

Jemenskir kaffibændur nutu góðs af þessu enda voru þeir lengi þeir einu sem kunnu að rækta kaffi. Jemenskir kaupsýslumenn græddu sömuleiðis á tá og fingri. 

Sér í lagi blómstraði hafnarborgin Al-Mokha á vesturströnd Jemens við Rauða hafið, þaðan sem kaffið flæddi út í heim — en orðið mokka er dregið af nafni borgarinnar. Myndin hér að ofan sýnir líflega höfnina í Al-Mokha og er teiknuð af hollenskum landfræðingi árið 1680.

Al-Mokha er í dag fátækt og eyðilegt smáþorp, enda lagðist kaffirækt í Jemen smátt og smátt út af þegar aðrar þjóðir fóru að tileinka sér kaffirækt og kaffiframleiðslu. Ræktarland Jemens er nú nær allt notað til að rækta qat-laufin sem stór hluti jemensku þjóðarinnar er háður því að tyggja til að komast í væga vímu.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Bærinn Mokka í dag.

Hlustið á allan þáttinn um sögu Jemens í spilaranum hér að ofan, en í honum er meðal annars einnig fjallað um hrakförum erlendra heimsvelda við að reyna að leggja undir sig Jemen, grimmdarverk jemensks Gyðingakonungs, stríðsfíla, og fornar rætur Húti-uppreisnarfylkingarinnar sem nú berst gegn jemenskum stjórnvöldum.

Í ljósi sögunnar er á dagskrá Rásar 1 á föstudagsmorgnum klukkan 09.05 og endurfluttur á laugardögum klukkan 18.10. Fyrri þætti má nálgast á síðu þáttarins og í hlaðvarpi RÚV.

Mynd með færslu
Vera Illugadóttir
dagskrárgerðarmaður
Í ljósi sögunnar
Þessi þáttur er í hlaðvarpi