Jolie sökuð um ómannúðlegar aðferðir

03.08.2017 - 13:50
epa04493821 US actress Angelina Jolie waves as she poses for a photograph during a photo call for her film Unbroken, in Sydney, Australia, 18 November 2014. Unbroken is the second film Jolie has directed, and the film opens in Australian cinemas in
 Mynd: EPA  -  AAP
Leikkonan Angelina Jolie hefur vakið mikla athygli fyrir störf sín í þágu mannréttindamála. Hún hefur meðal annars beitt sér fyrir menntun, kvenréttindum og barnavelferð auk þess að vera sérlegur sendiherra Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Í viðtali við tímaritið Vanity Fair í síðustu viku lét hún falla ummæli sem vakið hafa hörð viðbrögð, málið snýst um meint ofbeldi í garð kambódískra munaðarleysingja við framleiðslu kvikmyndar sem Jolie leikstýrði.

Kvikmyndin „First they killed my father,“ [Ísl. „Fyrst drápu þeir föður minn“] er byggð á samnefndri sjálfsævisögu Luoung Ung frá árinu 2000. Netflix framleiðir myndina, tökur hófust í nóvember 2015 og stóðu fram í byrjun árs 2016. Angelina Jolie leikstýrir myndinni, sem var frumsýnd í Kambódíu 18. febrúar. Leikið er á þjóðartungunni khmerísku. Jolie hefur sterka persónulega tengingu við Kambódíu og fór í fyrsta sinn til landsins árið 2001. Var ferðin farin í upphafi leikferilsins, í tengslum við tökur á kvikmyndinni Lara Croft: Tomb Raider. Varð þetta kveikjan að mannréttindastarfi Jolie. Hún ættleiddi elsta son sinn, Maddox Jolie-Pitt, frá Kambódíu árið 2002. Maddox er aðstoðarframleiðandi kvikmyndarinnar.

Sorgarsaga af þjóðarmorðum

Sagan byggist á æskuminningum kambódísks rithöfundar sem í barnæsku þurfti að berjast fyrir lífi sínu þegar landið var undir ógnarstjórn einræðisherrans Pols Pot. Hann var leiðtogi Rauðu khmeranna í Kambódíu og framdi skelfileg grimmdarverk á kambódísku þjóðinni í stjórnartíð sinni á árunum 1975-1979. Talið er að hátt í 1,7 milljónir manna hafi fallið í þjóðarmorðunum og listamenn og menntafólk voru ofsótt sérstaklega. Sagan inniheldur lýsingar Luoung Ung á því hvernig faðir hennar, fyrrum embættismaður, flúði með fjölskylduna frá einu þorpi til annars þar sem þau þurftu að leyna uppruna sínum og menntun. Flóttanum lauk með sundrung fjölskyldunnar þar sem Ung var, á barnsaldri, sett í herþjálfun á munaðarleysingjahæli en systkini hennar voru send í þrælkunarbúðir. Sagan er átakanleg endursögn á því hvernig systkinin finna hvert annað að lokum og sameinast á ný, þvert á allar líkur.

„Leikur“ með peninga

Í forsíðuviðtali við tímaritið Vanity Fair 26. júlí lýsir Jolie aðferðum við valið á aðalleikkonu myndarinnar, sem skyldi túlka persónu Luoung Ung. Hafi Jolie ásamt framleiðendum myndarinnar heimsótt munaðarleysingjahæli, sirkúsa og barnaskóla í fátækrahverfum í Kambódíu. Í kjölfarið hafi farið fram einskonar leikur þar sem barninu var sýndur peningur og það átti að hugsa um hvernig það myndi nýta peninginn og reyna á sama tíma að stela honum. Í framhaldinu kom Jolie síðan inn og ávítaði barnið fyrir þjófnaðinn. Það átti síðan að tala eða ljúga sig út úr aðstæðum. Voru svör barnanna síðan notuð til þess að leggja mat á það hvert þeirra hentaði í hlutverkið.

Í grein Vanity Fair er þessu lýst sem mjög harkalegri aðferð til að grisja úr barnahópnum þau börn sem glímt höfðu við verstu erfiðleikana. Auk þess var talað um að sálfræðingur hefði verið á staðnum vegna þess að sum barnanna hefðu fengið alvarleg tilfelli af áfallastreituröskun meðan á framleiðsluferlinu stóð. 

Túlkun Vanity Fair vísað á bug

Þann 31. júlí birtist frétt á Reuters þar sem Jolie vísar túlkun Vanity Fair á bug. Í raun hafi leikurinn verið sena sem börnin voru upplýst um að þau væru að taka þátt í. Í yfirlýsingu frá leikkonunni segir: „Ég er í uppnámi yfir því að æfing í spunaleik, byggð á senu í kvikmyndinni, hafi verið sett fram eins og raunverulegt atvik.“ Hún sagði að aðdróttanir að því að raunverulegir peningar hefðu verið teknir af börnum undir þessum kringumstæðum væru rangar og meiðandi og að hún yrði æf ef hún yrði vitni að slíkum atburði.

Mikil reiði greip um sig á samfélagsmiðlum eftir birtingu greinarinnar í Vanity Fair. Evgenia Peretz blaðamaður á sama tímariti lýsti atvikinu sem dæmi um „óhugnanlega raunhyggju“ [e.disturbing realism] á meðan Kayla Cobb, blaðamaður á vefritinu Decider.com, sagði að „allir ættu að vita betur en svo að bókstaflega dangla peningum framan í börn sem búa við örbirgð“, og „að engin kvikmynd væri þess virði að valda fjölda barna tilfinningalegum skaða.“ Jolie sagði að Srey Moch hefði fengið aðalhlutverkið vegna þess hve „buguð hún var af harmi,“ þegar hún var neydd til þess að skila peningunum, en hún sagðist þurfa peningana til þess að jarða afa sinn. Framleiðandi myndarinnar, Rithy Panh, sagði að engum blekkingum hefði verið beitt, líkt og ýjað hefði verið að í fjölmiðlum. Þvert á móti hefðu börnin áttað sig fullvel á því að hér væri um þykjustuleik að ræða.

Myndin er stærsta staka kvikmyndaframleiðsla sem komið hefur frá kambódískum framleiðendum og er hún unnin í bandarísk-kambódísku samstarfi. Til stendur að myndin fari í dreifingu á Netflix 15. september.