James magnaður í endurkomusigri Cleveland

21.04.2017 - 08:12
Cleveland Cavaliers forward LeBron James (23) dunks against the Golden State Warriors during the first half of Game 6 of basketball's NBA Finals in Cleveland, Thursday, June 16, 2016. (AP Photo/Ron Schwane)
LeBron James lék á als oddi í leik kvöldsins og tryggði sínum mönnum oddaleik um meistaratitilinn.  Mynd: AP  -  FR78273 AP
Körfuboltamaðurinn LeBron James átti ótrúlegt kvöld þegar Cleveland mætti Indiana Pacers á útivelli í 8-liða úrslitum austurdeildar NBA í gærkvöldi.

Cleveland Cavaliers byrjuðu leikinn afleitlega og voru 25 stigum undir í hálfleik, en þökk sé frábærri frammistöðu James þá tókst þeim að komast yfir undir lok fjórða og síðasta leikhlutans og þá forystu létu þeir ekki af hendi og unnu að lokum 119-114 og tóku um leið 3-0 forystu í einvíginu en vinna þarf fjóra leiki til að komast áfram.

Leikurinn var merkilegur fyrir margar sakir og var LeBron James í algjöru aðalhlutverki.  Hann skoraði 41 stig sem hjálpuðu honum að komast fram úr Kobe Bryant í þriðja sætið á listanum yfir þá sem hafa skorað mest í úrslitakeppni í sögunni, einungis Kareem Abdul-Jabbar og Michael Jordan standa honum framar á þessum lista.  

James jafnaði einnig fyrrum Los Angeles Lakers leikmennina Magic Johnson, Michael Cooper og James Worthy yfir flesta sigra í röð í fyrsta einvígi úrslitakeppninnar en James hefur nú unnið 20 sigra í fyrsta einvígi og tapað engum.  Að lokum komst Cavaliers liðið í sögubækurnar fyrir að vinna upp mesta mun í úrslitakeppni en eins og áður sagði lentu þeir undir með 25 stigum.

Önnur úrslit (staðan í einvíginu):

Memphis Grizzlies - San Antonio Spurs 105-94 (1-2)
Indiana Pacers - Cleveland Cavaliers 114-119 (0-3)
Milwaukee Bucks - Toronto Raptors 104-77 (2-1)

Gunnar Birgisson
íþróttafréttamaður