Jákvæð úrslit fyrir Merkel

15.05.2017 - 05:34
Mynd með færslu
Angela Merkel, kanslari Þýskalands.  Mynd: EPA  -  DPA
Kristilegir demókratar, CDU, flokkur Angelu Merkel kanslara Þýskalands, vann mikinn kosningasigur í Nordrhein-Westfalen, fjölmennasta sambandsríki Þýskalands. CDU felldi Jafnaðarmannaflokkinn, SPD, af stalli sínum sem stærsti flokkur þess, hlaut þriðjung atkvæða, rétt tæpum tveimur prósentustigum fleiri en SPD.

CDU bætir við sig miklu fylgi frá síðustu kosningum en SPD tapar að sama skapi talsverðu fylgi og er þetta í raun versta útkoma þeirra í Nordrhein-Westfalen frá upphafi, 31,4 prósenta fylgi. Úrslitin þykja stórsigur fyrir Merkel sem sækist eftir fjórða kjörtímabili sínu í embætti kanslara í kosningum í haust. Martin Schulz, formaður Jafnaðarmanna, segir erfitt að taka úrslitunum.

Frjálslyndir demókratar, FDP, eru með þriðja mesta fylgið, 12,6 prósent, og þjóðernisflokkurinn AfD er fjórði stærstur með 7,4 prósenta fylgi. Fylgi Pírata hrynur úr tæpum átta prósentum niður í eitt prósent. Píratar eiga því engan þingmann á ríkisþingi Nordrhein-Westfalen lengur. Þingið var leitt af samsteypustjórn Jafnaðarmanna og Græningja en flokkarnir misstu samanlagt tæplega þrettán prósentustiga fylgi í kosningunum í gær. Kristilegir demókratar hljóta 72 þingsæti af 199, Jafnaðarmenn 69 sæti, Frjálslyndir demókratar 28, AfD 16 og Græningjar 14.

Schulz sótti verulega á í skoðanakönnunum þegar hann kvaðst ætla að bjóða sig fram til kanslara gegn Merkel. Úrslitin í Nordrhein-Westfalia virðast hins vegar gefa vísbendingar um að fylgið sé að snúast til Merkel en kosningar í ríkinu gefa oft góða mynd af því hvernig kosningar fara á landsvísu.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV