Jafntefli í báðum leikjum kvöldsins

15.03.2017 - 22:00
Spennan er áfram mikil á toppi og botni Olís-deildar karla í handbolta eftir leiki kvöldsins. 23. umferð deildarinnar hófst með tveimur leikjum í kvöld. Valur tók á móti Haukum og FH mætti Fram en báðum leikjum lauk með jafntefli.

Haukar sem eru bæði ríkjandi deildar og Íslandsmeistarar sóttu bikarmeistara Vals heim í kvöld. Haukar voru einir á toppnum fyrir umferðina með 30 stig en Valur í 5. sæti með 21 stig. Valur var marki yfir í hálfleik 15-14 en Haukar náðu tveggja marka forystu þegar Andri Heimir Friðriksson kom þeim í 24-22. En aftur snérist dæmið við og Valur komst tveimur mörkum yfir.

Haukar unnu muninn upp á ný og Heimir Óli Heimisson jafnaði í 29-29 á lokamínútunni. Hvorugu liði tókst að skora sigurmarkið og niðurstaðan jafntefli, 29-29.

Framarar óheppnir í Kaplakrika

Í Kaplakrika tók svo FH á móti Fram. FH var aðeins tveimur stigum á eftir toppliði Hauka fyrir leikinn en Fram á botninum og róir lífróður í deildinni. Leikurinn var í járnum fyrstu mínúturnar en þegar um fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik komst FH þremur mörkum yfir í 12-9. Einu marki munaði þó í hálfleik, 13-12.

En Framarar ætla greinilega að gera sitt til að halda sæti sínu í deildinni og þegar leið á seinni hálfleik skilaði barátta Fram fjögurra marka forystu og Arnar Birkir Hálfdánsson kom þeim í 25-21 sjö mínútum fyrir leikslok. Jóhann Birgir Ingvarsson jafnaði fyrir FH í 27-27 á lokamínútunni og Fram tók leikhlé. Arnar Birkir freistaði þess að skora sigurmark Fram, en skot hans geigaði og liðin sættust á skiptan hlut, úrslitin 27-27.

Mynd með færslu
Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson
íþróttafréttamaður