J Dilla – heilinn á bak við tjöldin

Lestin
 · 
Tónlist
 · 
Menningarefni

J Dilla – heilinn á bak við tjöldin

Lestin
 · 
Tónlist
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
16.02.2017 - 18:49.Davíð Roach Gunnarsson.Lestin
Íslenska hljómsveitin Dillalude er tileinkuð tónlist bandaríska upptökustjórans J Dilla, sem lést árið 2006 úr sjaldgæfum blóðsjúkdómi, aðeins 32 ára gamall. Þá hafði hann þrátt fyrir ungan aldur átt stóran þátt í að móta hljóm margra þekktustu hip hop og sálartónlistarmanna okkar tíma.

Þrátt fyrir að nafn hans sé helst þekkt hjá grúskurum þá var hann maðurinn á bak við tjöldin hjá mörgum mun frægari listamönnum. Hann var frá bílaborginni Detroit og vakti fyrst almenna athygli með sveitinni Slum Village við upphaf 10. áratugarins.

Eftir hann liggur ógrynni laga fyrir listamenn á borð við Busta Rhymes, De La Soul, The Roots, Common, The Pharcyde, Erykuh Badu, D‘Angelo og A Tribe Called Quest.

Sveitina Dillalude skipa Magnús Tryggvason trommari, Ari Bragi Kárason trompetleikari, Steingrímur Teague hljómborðsleikari og plötusnúðurinn Benedikt Reynisson, betur þekktur sem B-Ruff. Þeir koma fram á Sónarhátíðinni nú um helgina þar sem þeir leika tónlist J Dilla, en þó með eigin slaufum, en flestir eiga strákarnir grunn í djassi. „Það kemur alltaf eitthvað twist á þetta. Við spinnum út frá grunnunum hans,“ segja þeir.

Dillalude spila lagið Runnin' fyrir útvarpsstöðina KEXP en það samdi J Dilla með bandarísku rapphljómsveitinni Pharcyde.

En hvaðan kemur áhuginn á J Dilla og hvernig byrjaði hann? Strákarnir segjast allir vera miklir aðdáendur rappsveitarinnar A Tribe Called Quest, og hafi síðar dottið í grúsk þegar þeir komust að því hver sneri tökkunum þar á bæ. „Þá kom í ljós að hann gerði taktana fyrir mjög mikið af því sem maður var að fíla. Hann var heilinn á bak við þetta.“

J Dilla var gríðarlega afkastamikill á um 15 ára ferli, og það hætti ekki eftir að hann veiktist skyndilega. Hann kláraði sína síðustu sóló-plötu, Donuts, í sjúkrarúminu, og lést þremur dögum eftir útgáfu hennar.

En hvað er það sem einkennir hljóm Dilla? „Einhvers konar soul-tónlist með dáleiðandi takti. Það er búið að teygja og beygja tónlistarlögmálin og ýkja alla grúv-eiginleika til hins ítrasta,“ segja Dillalude. „Þetta eru svona trommugrúv sem hljóma eins og þau séu að detta í sundur en eru samt akkúrat eins og þau eiga að vera. Það er ekkert inn í kassanum og allt er frjálst.“

En hvar á fólk að byrja sem þekkir ekki til höfundarverksins? „Bara fara beint í grunninn. Tékka á Beats, Rhymes and Life með A Tribe Called Quest og svo vinna sig upp frá því,“ segja Dillalude að lokum. Þeir lofa að spila rjómann úr höfundarverki J Dilla á tónleikum sínum á Sónar. 

Anna Gyða Sigurgísladóttir ræddi við Dillalude í Lestinni á Rás 1.