Íþróttafólk allra landa fær að koma til USA

31.01.2017 - 09:57
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Bandaríska Ólympíusambandið sendi frá sér yfirlýsingu í morgun vegna þeirra áhrifa sem tilskipun Donalds Trumps, forseta Bandaríkjanna, hefur á alþjóðlegar íþróttakeppnir í Bandaríkjunum. Orðalagið er loðið en þó ýjað að lausn.

Yfirlýsingin er send út í nafni Larry Probst, forseta bandarísku Ólympíunefndarinnar, og Scott Blackmun, framkvæmdastjóra nefndarinnar.

Þeir segja nefndina hafa fengið fjölda fyrirspurna vegna tilskipunar Trumps sem takmarkar rétt ríkisborgara 7 ríkja til að koma til Bandaríkjanna næstu þrjá mánuði. 

Probst og Blackmun ítreka að Ólympíuhreyfingin hafi alla tíð staði á grunni jafnra tækifæra, fjölbreytileika og þess að sigrast á mótlæti. Þeir vonast til þess að útfærsla tilskipunarinnar taki tillit til þeirra gilda sem Ólympíuhreyfingin, og raunar Bandaríkin sjálf, voru stofnuð á.

Stjórnvöld ætla að opna fyrir íþróttafólk

Í yfirlýsingunni segir að Ólympíunefninni hafi borist margar fyrirspurnir um það hvaða áhrif tilskipunin hafi á komur íþróttafólks til Bandaríkjanna til keppni. Tilslakanir af hálfu stjórnvalda virðast þó í sjónmáli.

„Í ljósi þeirra miklu áhrifa sem alþjóðlegar íþróttakeppnir hafa í að sameina fólk í friðsamlegum fögnuði íþrótta, afreka og virðingar, hefur ríkisstjórn Bandaríkjanna tilkynnt okkur að hún muni vinna með okkur til að tryggja að keppendur og dómarar frá öllum löndum muni njóta hraðmeðferðar við komu til Bandaríkjanna til þátttöku í alþjóðlegum keppnum,“ segir í yfirlýsingunni.

Ljóst þykir að Ólympíunefnd Bandaríkjanna hafi hlaupið upp til handa og fóta í kjölfar tilskipunar Trumps. Íþróttafólki hefur verið snúið við á leið til Bandaríkjanna, þeirra á meðal íslensk-íranska tai kwon do manninum Meisam Rafiei, vegna uppruna þeirra. 

Los Angeles er ein þeirra borga sem sækjast eftir því að halda Ólympíuleikana sumarið 2024 og tilskipun Trumps hefur þegar sett stórt strik í umsókn borgarinnar og þar með Ólympíunefndar Bandaríkjanna. Kosið verður um það í haust hvar leikarnir 2024 verða haldnir og keppir Los Angeles við París og Búdapest.