Íslenskur stórsigur í Höllinni - Myndband

18.06.2017 - 21:41
Það var ljóst fyrir leik að sigur myndi tryggja farseðilinn á Evrópumótið í Króatíu en jafntefli hefði dugað Úkraínu.

Eftir 20 mínútna leik var aldrei spurning hvort liðið færi á Evrópumótið. Strákarnir okkar völtuðu hreinlega yfir Úkraínu og þakið ætlaði að rifna af Laugardalshöllinni þegar dómarar leiksins flautuðu til leiksloka.

„Þetta var gríðarlega flottur leikur hjá drengjunum“ sagði kampakátur Geir Sveinsson í leikslok. Hann var sérstaklega ánægður með hversu margir leikmenn stigu upp í kvöld en tíu leikmenn liðsins komust á blað hvað varðar markaskorun á meðan Aron Rafn varði 15 skot í markinu.

„Það gekk nánast allt upp hjá okkur í sóknarleiknum og við uppskárum sannfærandi og öruggan sigur“ sagði örþreyttur Aron Pálmarsson í leikslok en Aron skoraði fimm mörk í kvöld.

„Vorum vel vakandi og tilbúnir alveg frá byrjun og æðislegt að finna orkuna frá Höllinni og njóta leiksins“ sagði landsliðsfyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson að lokum.

Mynd með færslu
Runólfur Trausti Þórhallsson
íþróttafréttamaður