Íslenskur Drakúla vekur athygli sérfræðinga

18.03.2017 - 02:14
Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia
Yfir aldargömul íslensk þýðing Valdimars Ásmundssonar af sögunni um Drakúla greifa kom nýlega út í enskri þýðingu. Þýðandinn segir söguna að nokkru leyti frábrugðna upprunalegu sögu Bram Stokers. Íslenska þýðingin bar nafnið Makt myrkranna og var birt sem framhaldssaga í tímaritinu Fjallkonunni árið 1900, áður en hún kom út í formi bókar.

Drakúla-fræðimenn uppgötvuðu íslensku þýðinguna ekki fyrr en árið 1986 og urðu steinhissa á því að sjá að formálinn var skrifaður af Stoker sjálfum. Þeir þýddu formálann, en létu þar staðar numið.

Nærri þrjátíu árum síðar, árið 2014, ákvað annar fræðimaður í málefnum Drakúla, Hans Corneel de Roos, að þýða allan textann. Formálinn hafði vakið áhuga hans á íslensku þýðingunni og varð hann ekki fyrir vonbrigðum með niðurstöðuna. Þar kom í ljós að Valdimar hafði bætt við persónum, einfaldað fléttu sögunnar og gert hana erótískari.

De Roos er virtur Drakúla-fræðingur. Hann samdi bókina „The Ultimate Dracula" og hefur hlotið rannsóknarverðlaun Drakúlastofnunarinnar í Transylvaníu. Þýðing hans á Makt myrkranna ber heitið „Powers of Darkness“. Hann segist hafa orðið hissa og jafnframt hæstánægður, því allir Drakúla-fræðingar töldu Makt myrkranna aðeins beina þýðingu af upprunalegu sögu Stokers.

Í samtali við bandaríska dagblaðið Sacramento Bee segir de Roos að líkur séu á því að sagan sé eftir öðru handriti en Stoker gaf út. Hann hafi ef til vill viljað gefa æsilegri útgáfu sögunnar út í leyni; útgáfu sem hefði ekki notið hylli í Englandi Viktoríutímans. De Roos telur að Makt myrkranna sé þannig þýdd eftir eldri drögum Stokers af Drakúla. Nokkrar hugmyndir sem lýst er í eldri minnisblöðum Stokers, sem ekki komust í lokahandrit Drakúla, megi finna í Makt myrkranna.

Aðspurður segist hann hrifnari af íslensku útgáfu sögunnar. Hún sé beinskeyttari og ekki jafn væmin. Þá greinir de Roos frá því að íslenskur kvikmyndagerðarmaður hafi tilkynnt eftir útgáfu „Powers of Darkness“ að hann vilji framleiða sjónvarpsþáttaröð byggða á Makt myrkranna.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV