Íslendingur hrekkti Geimgengil í vef-Jatsí

29.06.2017 - 14:47
Mynd með færslu
 Mynd: Star Wars  -  RÚV
Íslenski forritarinn Einar Egilsson, sem er meðal annars með leikjasíðuna cardgames.io, hefur vakið nokkra athygli fyrir „hrekk“ sem hann gerði bandaríska leikaranum Mark Hamil. Einar nýtti sér stöðu sína til að setja upp „fyrsta“ bardaga milli Loga Geimgengils og Svarthöfða síða 1982 í netútgáfu teningaspilsins Jatsí.

Einar greindi frá hrekknum á vef sínum og í framhaldinu hefur meðal annars verið fjallað um hann á vef Mashable og víðar. 

Upp komst um hrekkinn þegar Hamil, sem er ákaflega virkur á samfélagsmiðlinum Twitter, tísti skjáskoti af óvæntum andstæðingi sínum í Jatsí, nefnilega sjálfum Svarthöfða. Sem þar að auki hafði verið merktur sem pabbi eða „Dad“ 

Grínið varð enn betra því þegar „bardaginn“ með teningana hófst og Hamil fékk Jatsí sendi leikurinn honum eftirfarandi skilaboð: „Mátturinn er sterkur hjá þér“ eða „The Force is strong with You.“ Ódauðleg setning úr Stjörnustríði.

Einar segir í færslu sinni að hann hafi ekki getað staðist freistinguna þegar hann sá færslu hjá Hamil að hann væri að spila Jatsí á netinu. Hann hannaði því hrekkinn þannig að mynd af Svarthöfði yfir nafninu „Dad“ eða pabbi myndi eingöngu birtast í leik þar sem notuð var mynd sem Hamil hafði notað.

Einar segir enn fremur að þótt „hrekkurinn“ hafi aðeins tekið um klukkustund sé þetta eflaust sá kóði sem er í hvað mestu uppáhaldi hjá honum.  

Logi Geimgengill og Svarthöfði úr Stjörnustríði eru sennilega frægustu feðgar. kvikmyndasögunnar. Þeir áttust við í frægum bardaga í Empire Strikes Back þar sem Logi kemst að því, eftir að Svarthöfði heggur af honum hendina með geislasverði, illmennið er faðir hans og Lilju prinsessu.

Hamil hefur líkt og Stjörnustríð gengið í endurnýjun lífdaga í nýjustu myndunum. Búist er við að hann verði í nokkuð stóru hlutverki í nýjustu myndinni Last Jedi.

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV