Ísland á tíunda Evrópumótið í röð

18.06.2017 - 20:28
Mynd með færslu
 Mynd: Tomasz Kolodziejski  -  RÚV
Ísland tryggði sér í kvöld þátttökurétt á Evrópumótinu í handbolta með 34-26 sigri á Úkraínu í Laugardalshöllinni nú rétt í þessu. Leikurinn var hreinn úrslitaleikur um hvort Ísland kæmist á Evrópumótið sem fer fram í Króatíu í janúar.

Það var frábær stemmning í Laugardalshöllinni þegar annars slakir dómarar leiksins flautuðu til leiks í kvöld. Geir Sveinsson ákvað að skipta um markvörð í dag en Aron Rafn Eðvarðsson átti góða innkomu gegn Tékklandi og hélt sæti sínu.

Þolinmæði þrautir vinnur allar

Leikurinn var í járnum fyrsta þriðjung leiksins og Ísland átti í stökustu vandræðum með að hrista Úkraínu af sér. Í stöðunni 10-10 komst íslenska liðið á skrið, bæði sóknarlega og varnarlega. Á síðustu tíu mínútum fyrri hálfleiks skoraði Ísland átta mörk en fékk aðeins á sig þrjú.

Úkraína vissi ekki sitt rjúkandi ráð og komst hvorki lönd né strönd gegn íslensku vörninni. Staðan var 18-13 í hálfleik og útlitið bjart fyrir strákana okkar.

Atvik fyrri hálfleiksins var þó líkamsárás sem Ólafur Guðmundsson varð fyrir en Stanislav Zhukov lamdi hann í andlitið. Samkvæmt reglunum hefði átt að reka Zhukov útaf en hann fékk aðeins tveggja mínútna brottvísun.

Síðari hálfleikurinn var svo beint framhald af síðustu tíu mínútum fyrri hálfleiksins. Ísland hélt Úkraínu alltaf fimm mörkum frá sér og endaði á því að vinna átta marka sigur.

Þegar dómarar kvöldsins flautuðu leikinn af var staðan 34-26 okkur í vil og mikill fögnuður braust út í Laugardalshöllinni. Þar með var ljóst að Ísland væri að fara á sitt níunda Evrópumót í röð, í Króatíu í janúar.

Stekur heimavöllur

Eins og Laugardalsvöllur er orðið vígi fyrir landsliðið í knattspyrnu þá skilaði Laugardalshöllin sínu í undankeppninni en Ísland vann alla þrjá heimaleiki sína.

Ísland endar undankeppnina í þriðja sæti riðlsins á eftir Makedóníu og Tékklandi en Ísland er með besta árangur þeirra liða sem enduðu í þriðja sæti.

Markahæstur í íslenska liðinu var fyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson en hann skoraði átta mörk í dag. Þar á eftir komu Ólafur A. Guðmundsson og Aron Pálmarsson með fimm mörk. Arnar Freyr Arnarson, Rúnar Kárason og Ásgeir Örn Hallgrímsson skoruðu svo fjögur mörk hver.

Tíu leikmenn íslenska liðsins komust á blað í dag en sóknarleikurinn var allt annar en gegn Tékklandi. Aron Rafn var jafnframt öruggur í öllum sínum aðgerðum í markinu en hann varði 15 skot í heildina.

Hjá Úkraínu var Stanislav Zhukov með sjö mörk en hann hefði með réttu átt að fá rautt snemma leiks. Í markinu var Igor Chupryna með 10 skot varin.

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson  -  RÚV
Mynd með færslu
Runólfur Trausti Þórhallsson
íþróttafréttamaður